138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:03]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka menntamálaráðherra fyrir að koma hér og benda á að ekki sé öll nótt úti enn fyrir íslenska kvikmyndagerð, að enn þá sé einhver lífsvon.

Ég leyfi mér að fullyrða hér og nú að íslensk kvikmyndagerð á síðari hluta síðustu aldar og það sem af er þessari hefur verið flaggskip íslenskrar menningar án þess að nokkuð sé tekið frá eldri listgreinum en kvikmyndalistinni. Kvikmyndagerð á Íslandi hefur lifað erfiða daga og hún mun alltaf eiga erfiða daga meðan þjóðin er svo lítil sem raun ber vitni. Sá lágmarksstuðningur sem kvikmyndagerðinni hefur tekist að ávinna sér er lífsnauðsynlegur til þess að þessi listgrein geti haldið áfram að þróast og blómgast hér á landi. Og fyrir þá sem hugsa aðeins í praktískum atriðum fullyrði ég hérna að fari svo að það framlag til kvikmyndagerðar sem hér um ræðir verði skorið niður, muni það kosta þjóðfélagið um eitt þúsund ársstörf. Það eru mörg störf og tiltölulega viðráðanlegir peningar.