138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Forsendur fyrir því fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram fyrir árið 2010 er skýrsla fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, stöðugleikasáttmálinn sem gerður var í sumar við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög og það að verja kjör þeirra sem verst eru settir. Markmiðið er að ná efnahagslegum stöðugleika og honum verður ekki náð nema ríkisfjármálum verði komið á styrkan grundvöll. Til að svo megi vera verða fjárlögin að vera trúverðug og framkvæmd þeirra markviss.

Undanfarin ár hefur framúrkeyrsla á fjárlögum sloppið fyrir horn því að tekjurnar hafa einnig verið meiri en lögin gerðu ráð fyrir. Haga þarf vinnubrögðum nú á þann veg að þau dragi úr líkum á að útgjöld fari umfram heimildir í fjárlögum. Þannig er nauðsyn á auknum aga í framkvæmd fjárlaganna og reyndar einnig við samningu þeirra. Fjármálaráðherra mun á haustdögum leggja fyrir ríkisstjórn til afgreiðslu verklagsreglur og viðmiðanir sem auka á trúverðugleika fjárlaga og styrkja framkvæmd þeirra.

Miðað við gefnar forsendur um þjóðarhag er ramminn fyrir opinber útgjöld gefinn. Að smíða þann ramma er ekki erfiðasta verkið í ferlinu. Það er erfiðara að raða inn í rammann og ákveða hverju á að sleppa og í hvað á að eyða því fé sem er til skiptanna.

Skuldastaða ríkisins hefur ráðið mestu um að valið hefur verið að fara í aðgerðir eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Það er áætlunin að greiða hratt niður skuldir og sleppa þannig við óheyrilegan vaxtakostnað sem greiða þyrfti ef hægar væri farið í sakirnar. Því er kapp lagt á að eyða um 180 milljarða kr. halla á fjórum árum og hefja þá niðurgreiðslu skulda af krafti.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hér í dag og einnig margoft síðastliðið sumar, einkum í umræðum um skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, er áætlað að skera niður, hagræða og auka tekjur samtals um 63 milljarða á árinu 2010. Stöðugleikasáttmálinn gerir ráð fyrir að 55% verði niðurskurður eða um 35 milljarðar og 45% náist með sköttum eða um 28 milljarðar.

Ýmsir óttast að of bratt sé farið í niðurskurð á opinberri þjónustu. Að með niðurskurðinum verði gengið of nærri þeim sem standa höllum fæti, svo sem þeim sem þarfnast þjónustu tryggingakerfis og heilbrigðiskerfis. Lífsgæði þeirra verði enn verri og að þeir beri hlutfallslega stærsta hluta afleiðinga kreppunnar. Það þarf að fara með gát þegar skorin eru niður opinber útgjöld. Verja þarf grunnþjónustu og aðra þá þætti sem vinna að samfélagsuppbyggingu og hafa hagsmuni barna í forgrunni.

Til dæmis þarf að hafa í huga að í góðu skólakerfi felst mikilvæg uppbygging til framtíðar. Þó að þrengt sé að fjárhag skólanna verður að gæta þess m.a. að það verði ekki til þess að jöfn tækifæri ungmenna til náms verði fyrir borð borin. Að fljótandi skil skólastiga megi þróast áfram á jákvæðan hátt og að jöfnunarsjóður til náms nái að þjóna sínu hlutverki.

Almennt er miðað við að stofnanir og ráðuneyti hagræði og spari og að þau verkefni verði lögð niður tímabundið sem mögulegt er. Að skerðing á þjónustu verði í lágmarki og uppsagnir starfsmanna einnig. Í því verki þarf að líta í mörg horn og gæta að því að kostnaður vegna niðurskurðar af ríkisins hálfu lendi ekki á sveitarfélögunum í staðinn. Farið verður vel yfir þau svið þar sem hætta er á slíku. Sparnaður á einum stað í kerfinu getur líka stuðlað að auknum kostnaði á öðrum. Raunverulegur sparnaður í beinhörðum peningum þarf að liggja fyrir þegar verkefni eru endurmetin.

Þingnefndir munu á næstu dögum og vikum fara yfir þá málaflokka sem þeim tilheyra. Ljóst er að frumvarpið mun taka breytingum í meðförum þingsins og gerðar verða breytingar sem m.a. taka á þeim atriðum sem ég hef nefnt. Veikleikar frumvarpsins verða leitaðir uppi og yfirfarnir en einnig styrkleikar og greinilega má sjá að unnið hefur verið gott verk við erfiðar aðstæður við smíði frumvarpsins. Það er þó ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk.

Dæmi um aðgerð sem veldur auknum kostnaði þegar upp er staðið eru áform um skerðingu framlaga til Kvikmyndasjóðs, eins og komið hefur fram í umræðum hér í dag. Þar þarf að finna jafnvægi á milli niðurskurðar á framlögum og aukinna ríkistekna vegna hans.

Mörg góð verkefni munu tímabundið fá minna fé en áður en taka þarf til skoðunar sérstaklega þau sem leggjast munu alfarið af ef framlög til þeirra eru skert eða langur tími mun líða þar til þau geti náð aftur góðri stöðu. Sem dæmi um slíkt í fjárlagafrumvarpinu sem hér er til umræðu eru verkefni er varða menntun og voru borin uppi af mótvægisaðgerðum vegna skerðingar á þorskkvóta. Framlög vegna mótvægisaðgerða eru öll skorin niður. Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú á fyrrum varnarsvæði á Suðurnesjum, fékk slíkt framlag og ef ekkert verður að gert munu tugir nemenda líða fyrir og einnig uppbygging samfélagsins á fyrrum varnarsvæði. Sama á við um Háskólasetur Vestfjarða sem naut framlaga vegna mótvægisaðgerða til frumgreinanáms og náms í haf- og strandveiðum.

Áreiðanlega eru margir vonsviknir vegna þess að eitthvað það sem tekið hefur langan tíma að fá framgengt er nú tímabundið tekið til baka. Við erum reyndar öll vonsvikin vegna þeirrar atburðarásar sem leiddi okkur í svo slæma stöðu. Með fjárlagafrumvarpinu er ekki beinlínis verið að flytja gleðifréttir. Við yfirferð í þingnefndum þarf að vega frumvarpið og meta og tryggja að markmiðum þess séu í raun náð, þ.e. að skila afgangi til að vinna á hallanum en verja jafnframt velferðar- og grunnþjónustu.

Starfsmenn ríkisins hafa unnið mikið og gott starf við hagræðingu og sparnað í ríkisrekstri á þessu ári og fyrir það ber að þakka. Stofnanir hafa margar hverjar nú þegar skorið rekstrarkostnað umtalsvert niður og kvíða frekari niðurskurði. Gæta verður jafnræðis á milli stofnana hvað þetta varðar.

Ég hef stiklað á stóru um tilgang og markmið frumvarpsins og nefnt dæmi um málefni sem þarf að vinna að á milli umræðna og nefnt ákveðin dæmi sem koma til umsagnar hv. menntamálanefndar. Slík dæmi má vafalítið finna í öllum málaflokkum og á þeim verður tekið og kostir vegnir og metnir á milli umræðna.

Heildarniðurstaðan verður samt sem áður að rúmast innan rammans sem fjárlagafrumvarpið gefur.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 er liður í efnahagsáætlun næstu ára. Nauðsynlegt er að sýna fram á trúverðugleika efnahagsáætlunarinnar með góðum árangri í ríkisfjármálunum.

Tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 470 milljarðar kr. og nemi 30% af landsframleiðslu. Að frátöldu árinu 2009 hafa þær ekki verið minni á þann mælikvarða frá árinu 1987. Þar af er gert ráð fyrir að skatttekjur verði um 423 milljarðar kr. Breytingar á skattlagningu eru að hluta óútfærðar þótt gert sé ráð fyrir mestri breytingu á skattlagningu tekna og fjármagnstekna einstaklinga. Einnig er gert ráð fyrir nýrri skattlagningu orku og auðlinda og að minnst skili breytingar á virðisaukaskatti.

Í frumvarpinu er jafnframt boðað að þegar breytingar á skattlagningu verða útfærðar verði haft í huga að jafnræði sé í skattlagningu, að dreifing skattbyrðarinnar sé sanngjörn, að hún hafi sem minnst áhrif á ákvarðanir um fjárfestingu og neyslu og að skattkerfið þjóni þeim markmiðum að jafna tekjudreifingu í þjóðfélaginu. Skattkerfið verði jafnframt einfalt og gagnsætt.

Það verður því umfangsmikið verkefni á næstu vikum að hanna breytingar á skattkerfinu sem skila þeim tekjum sem gert er ráð fyrir og uppfylla öll þau skilyrði sem til eru tekin í fjárlagafrumvarpinu en öll eru þau mikilvæg svo víðtæk sátt megi nást um breytingarnar.

Virðulegi forseti. Aðgerðirnar sem við þurfum að fara í og fjárlagafrumvarpið boðar eru ekki einfaldar og ekki með öllu lausar við sársauka, en þær eru nauðsynlegar til að koma okkur hratt og vel upp úr þeirri djúpu lægð sem við erum í, svo að við komumst sem fyrst á þann stað sem gerir okkur kleift að vinna á ákaflega slæmri skuldastöðu. Stjórnvöld hafa dregið fram þörfina fyrir þær breytingar og aðgerðir sem frumvarpið boðar. Verkefnin eru stór en ekki óvinnandi og á þeim er skilningur meðal þjóðarinnar. Skilningur er einnig meðal starfsmanna og forstöðumanna ríkisstofnana en það eru einmitt þeir sem varða munu leiðina til árangurs.