138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að reyna að skýra nokkur atriði sem hv. þingmaður spurði um varðandi stofnunina Matís. Þá skýrist það orðalag sem kannski hefði þurft að vera ítarlegra einfaldlega vegna þess að þessi stofnun hefur búið við það ástand í húsnæðismálum að vera á þremur, fjórum stöðum með starfsemi sína með tilheyrandi óhagræði. Það var ákveðið í vetur að hleypa af stað ýmsum slíkum verkefnum, að flýta úrbótum í húsnæðismálum opinberra stofnana þar sem fyrir lágu áætlanir um slíkt og ein af þeim stofnunum var Matís. Farið í að bjóða út innréttingu á nýju húsnæði fyrir hana og það kallar á þau störf sem vikið er að í greinargerðinni. Á móti þarf að koma nokkur hækkun til að mæta húsaleigu á hinum nýja stað þar sem stofnunin flyst þá öll saman á einn stað og greiðir húsaleigu í staðinn fyrir að vera að hluta til í opinberu húsnæði í dag.

Varðandi verndaða vinnustaði þekki ég það mál ekki og mundi vilja að þeir fagráðherrar sem kunna nákvæmlega á það svöruðu fyrir það.

Í sambandi við ferjureksturinn er þar sannarlega ekki kjördæmapot á ferðinni, ég hef ekki séð þetta áður en ég sé strax í hendi mér hvað þarna er á ferðinni. Færðar eru inn tölur algerlega í samræmi við gildandi samninga við rekstraraðila á því sviði. Það vill svo til að ég man að trappa átti niður stuðninginn til ferjunnar Baldurs í ákveðnum áföngum á árabili tengt við fyrirhugaðar vegabætur á Barðaströnd. Nú kunna þær að hafa tafist og það þarf að sjálfsögðu að líta á það. En þessi áætlun lá fyrir og ég man að ég heimsótti rekstraraðila ferjunnar fyrir um ári síðan og þá kynntu þeir mér þessar áætlanir. Þarna eru því færðar inn í fjárlagafrumvarpið tölur í samræmi við gildandi samninga og áætlanir eins og þær hafa staðið um styrki til þessarar starfsemi á næstu árum.

Að lokum varðandi landsbyggðina þá mótmæli ég því að hægt sé að lesa út úr þessu einhverja óvild í hennar garð nema síður sé. Ég bendi t.d. á að þrátt fyrir niðurskurðinn eru öll þau verkefni sem svæðisnefndirnar innleiddu á undanförnum árum látin halda sér, norðvestur-, norðausturnefndin, o.s.frv. Það er ekki hróflað við því. Þar var um mjög dreifð verkefni, mörg smá, að ræða, störf hér og þar og það heldur sér. Sömuleiðis er það með hinar almennu hagræðingar, (Forseti hringir.) þeirra mun ekki síður sjá stað á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.