138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er býsna hrædd um, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að þeir atburðir sem orðið hafa á umliðnu ári verði til þess að byrðar muni leggjast á komandi kynslóðir nema við stöndum okkur mjög vel og reynum að draga eins mikið og hægt er úr því höggi sem orðið hefur. Ég held að þegar þjóðfélag lendir í svona miklu höggi sé veruleg hætta á að það muni taka nokkurn tíma að komast út úr því aftur.

Ég held líka að maður þurfi að velta fyrir sér þegar svona er og bíllinn er að verða bensínlaus hvort ekki sé betra að taka bensín en að ætla sér að fara á hálftómum bílnum miklu, miklu lengra, ef hv. þingmaður skilur hvað ég á við með því. Ég held að það sé skylda okkar við þær aðstæður sem nú eru að líta til allra leiða til að auka tekjurnar. Ef hægt er að gera það án þess að skerða lífeyrisréttindin til framtíðar litið finnst mér skylda manna að skoða það.