138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:45]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fara varlega í að tala um það hvað menn sjá fyrir sér í því að þeir missi vinnuna. Það er auðvitað mjög brýnt að fá upp á borðið hvernig þetta er hugsað en ég vil í rauninni bíða með að kynna þessar útfærslur til sparnaðar þangað til þær liggja fyrir.

Það sem snýr að lögreglunni sérstaklega er að lögð hefur verið áhersla á það af okkar hálfu að hin almenna löggæsla skerðist ekki. Hvaða niðurskurðarkrafa er gerð til löggæslunnar? Ráðuneytið þarf að mæta 10% niðurskurðarkröfu en þarna kemur inn 150 millj. kr. sérstök fjárveiting, sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu, til þess að styrkja almenna löggæslu og til að lögreglumenn sem sinna henni missi ekki vinnuna. Þetta mundi þá fara niður í (Forseti hringir.) rúmlega 8% sparnaðarkröfu.