138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um þetta viðamikla verkefni okkar sem mun taka mikinn hluta af tíma þingsins til jóla, enda gríðarlegt átak sem þarf að ráðast í sem flestum er kunnugt um hvernig til er komið og hefur verið fjallað um umfangið á hér í dag.

Við höfum allt þetta ár verið að reka ríkissjóð með 500 millj. kr. halla á dag. Safnað hálfum milljarði á degi hverjum í nýjar skuldir á komandi kynslóðir og til þess að íþyngja skattgreiðendum morgundagsins og er óhjákvæmilegt að á þeim hallarekstri sé tekið fast og örugglega. Hér var afgreidd í góðu starfi í sumar áætlun um hvernig megi ná því á næstu þremur árum. Það er gríðarlega mikilvægt að okkur lánist að taka myndarlegt skref í því einmitt núna fyrir næsta ár, árið 2010, vegna þess að þær skuldir sem ríkissjóður hefur nú þegar safnað eru orðnar slíkar að vaxtakostnaður ríkisins er 100 milljarðar á ári, sem þýðir svona á mannamáli að hvert heimili í landinu greiðir um eina milljón króna á ári bara í vexti af skuldum ríkisins. Þá erum við ekki að tala um vexti af skuldum sveitarfélaganna eða afborganir lána eða alla þá þjónustu sem ríkið stendur undir, heldur ein milljón á hvert heimili í landinu sem fer bara í vexti. Það sér auðvitað hver maður að vinda þarf bráðan bug að því að stöðva þá skuldasöfnun. Því er þetta fjárlagafrumvarp jú fram komið.

Það er mikilvægt að við höfum það öll í huga að þó að hér sé um gríðarlega mikið átak að ræða og niðurskurður muni í raun og veru koma alls staðar við, á öllum sviðum ríkisrekstrarins og allir finna með einum eða öðrum hætti fyrir þessum aðgerðum, bæði í niðurskurðarþættinum og eins í tekjuöfluninni, þá eigum við líka að horfa til þess að við höfum auðvitað notið hér mikils uppgangs á undanförnum árum fyrir hrunið, mikillar tekjuaukningar og útgjöld ríkisins hafa aukist mjög verulega. Verkefnið þess vegna, þótt það sé stórt, þá er það sannarlega viðráðanlegt. Við Íslendingar getum tekist á við það og lagt þessa áfanga að baki einn af öðrum og snúið hallarekstri ríkissjóðs í það að hér skili ríkissjóður afgangi og við getum farið að greiða niður skuldirnar.

Í raun og veru er verkefnið, þótt stórt sé, ekki stærra í sniðum en svo að ef við tækjum upp fjárlög ársins 2002, sem við flest gátum nú lifað ágætlega við, bæði þær skattbyrðar sem í þeim voru og eins þau útgjöld til þjónustu sem þar voru, þá hefðum við í raun og veru leyst verkefnið. Þegar við skoðum útgjaldatölur sem eru í frumvarpinu, þá vekur það náttúrlega athygli að rekstrarútgjöldin sem gert er ráð fyrir í þessum mikla niðurskurði í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2010 eru 555 milljarðar, rétt eins og rekstrarútgjöldin voru í frumvarpinu fyrir árið 2009. 555 milljarðar. Þannig að verkefnið felst í raun og veru í því að ná raunlækkun á útgjöldin í samræmi við verðbólguna sem verið hefur í ár, þ.e. að halda þeim svipuðum að krónutölu.

Hér hefur leikið nokkurt hlutverk að auðvitað hafa útgjöld aukist frá því sem ætlað var upphaflega í fjárlögunum 2009, eða um liðlega 20 milljarða, einkum vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs og nokkurra annarra sjóða ríkisins, Ríkisábyrgðasjóðs og Ofanflóðasjóðs og annarra sjóða. Síðan eru gengisbreytingar sem gert er ráð fyrir á milli áranna og verðleiðréttingar sem skila öðrum 20 milljörðum, sem gera það að verkum að þó hér sé verið að fara í 43 milljarða niðurskurð á ríkisútgjöldum og verið að koma í veg fyrir eða veita ekki hækkanir á launum og lífeyri sem nemur um 11 milljörðum króna, þá erum við fyrst og fremst að halda útgjöldunum óbreyttum að krónutölu.

Auðvitað hefur verið skýrt hvernig þetta er gert í aðalatriðum og er langt frá því að vera flatur niðurskurður. Þó að stuðst sé við það að ná ákveðnum sparnaði í prósentum í einstökum málaflokkum, 7% í menntamálunum, 5% í velferðarþjónustunni og 10% í öðru, þá fer því auðvitað fjarri að þær viðmiðunartölur gangi bara flatt yfir stofnanirnar eða þjónustu ríkisins. Auðvitað er vegið og metið í hverjum málaflokki hver stofnun, hver þáttur í þjónustunni. Sumar þurfa að taka á sig meiri niðurskurð en aðrar, allt eftir eðli og aðstæðum og efni máls.

Eins og ég segi, þó að hér þurfi að taka fast á og vissulega séum við Íslendingar allir að horfast í augu við umtalsverða kaupmáttarrýrnun á næsta ári eins og á því yfirstandandi, þá er þetta nokkuð sem við eigum að geta ráðið við. Sannarlega er gert ráð fyrir að kaupmáttur rýrni um í kringum 10% á næsta ári eins og hann hefur verið að gera í ár, en við eigum þá líka að hafa það í huga að við höfum búið að mjög miklum kaupmáttarvexti í mörg, mörg undangengin ár og búið hér við einhvern hæsta kaupmátt í heimi, þannig að víða er a.m.k. af nokkru að taka.

Hér hefur tekjuhlið frumvarpsins nokkuð verið til umfjöllunar. Það hefur verið gagnrýnt töluvert að að hluta til er í tekjuöfluninni gert ráð fyrir því að tekin verði upp gjöld sem tengjast umhverfiskostnaði, sem tengjast auðlindum og sem tengjast orkusölunni í landinu. Gert er ráð fyrir því að af 63 milljarða skattahækkunum lendi 16 milljarðar á þessum þáttum, að þessir þættir skili sem sagt þeirri fjárhæð í ríkissjóð. Það jafngildir því í raun og veru að það þurfi ekki að hækka tekjuskatt að sama skapi um rúmlega 2%. Ég held að það sé ósköp eðlilegt að spyrja þá sem gagnrýna þessar fyrirætlanir hvort þeir telji þá réttara eða eðlilegra að ráðast í rúmlega 2% hækkun á tekjuskatti á alla landsmenn ofan á þá 11% kaupmáttarrýrnun sem gert er ráð fyrir á næsta ári. Það sjá allir að þar væri auðvitað verulega verið að bæta í byrðarnar hjá venjulegu fólki í landinu, venjulegu vinnandi fólki. Má nokkrum undrum sæta að ekki megi kalla fleiri til í að axla þær byrðar sem hér þarf að axla heldur en þá sem greiða tekjuskatt í landinu.

Ég held að það sé ósköp eðlilegt að við köllum eftir því að hér sé greitt fyrir mengun. Það eru viðhorf sem um allan heim hafa verið að ryðja sér til rúms og eru viðurkennd viðhorf og eru í sívaxandi mæli að ryðja sér til rúms og mæta sannarlega skilningi í atvinnulífinu.

Við sjáum líka fyrirtæki spretta upp og raunar ánægjulegar nýfjárfestingar einmitt nú í vikunni, sem beinlínis nýta sér þau tækifæri sem við Íslendingar höfum á þessu sviði í því að grípa til ráðstafana sem draga úr mengun. Þá er einmitt mikilvægt að skattar sem þessir, skattar sem leggjast á mengun, séu til staðar þannig að kostnaðurinn við mengunina sé til staðar og það borgi sig að grípa til ráðstafana til þess að draga úr mengun, ráðstafana eins og menn eru að reyna í Svartsengi núna með því að endurnýta útblásturinn þaðan í eldsneyti fyrir bifreiðar.

Sömuleiðis er auðvitað ósköp eðlilegt að ein þjóð geri kröfu til þess að hafa nokkurn arð af auðlindum sínum og að einhver gjaldtaka af því hljóti að mega teljast nokkuð eðlileg.

Umfjöllun um tekjuskattshliðina og fjármagnstekjuskattinn í frumvarpinu hefur líka sannarlega verið nokkuð orðum aukin. Vissulega er sú tala sem er í frumvarpinu um 37 milljörðum hærri en á yfirstandandi ári, en það eru sannarlega ekki nýir tekjuskattar upp á 37 milljarða. Þar inni eru verðlagsbreytingar og magnbreytingar frá yfirstandandi ári sem draga nokkuð úr upphæðinni. Þar koma líka til frádráttar þær aðgerðir sem við gripum til í sumar, bæði skattur á hærri tekjur og sömuleiðis hækkun á fjármagnstekjuskatti sem koma hér til frádráttar. Við verðum auðvitað líka að hafa það í huga að í tekjuskattinum erum við enn þá með umtalsvert lægri (Forseti hringir.) skattprósentu en var hér áður en aðdragandi hrunsins hófst og farið var í skattalækkanir á röngum stað og röngum tíma.