138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega orðanotkun sem nær ekki einu sinni máli, að skattleggja atvinnulífið til dauða, slá af minni fyrirtæki. Og að það sé sérstaklega gert í þessu fjárlagafrumvarpi. Veruleikinn er sá að hér er ekki gert ráð fyrir almennum hækkunum á lögaðila. Það má alveg spyrja hvort það sé rétt. Á ekki t.d. að fara með tekjuskatt á hagnað lögaðila, þó þau fyrirtæki sem eru með góða afkomu og eru að hagnast, a.m.k. aftur upp í þau 18% sem hann var nú á síðasta ári?

En vissulega er það þannig að það þarf að fara mjög gætilega, því síst af öllu megum við við því að atvinnulífið dragist saman. Það hefur tekið á sig eina þunga byrði nú þegar. Það var samkomulag um það að ekki væri um annað að ræða en að hækka þann hluta tryggingagjaldsins sem rennur til að fjármagna Atvinnuleysistryggingasjóð. Það mun að vísu ekki duga. Almennar skatttekjur á næsta ári munu renna inn í Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að hægt sé að greiða atvinnuleysisbætur. Væntanlega vill hv. þingmaður það.

Hv. þm. Tryggvi Herbertsson sagði að það gengi ekki að vaxtakostnaður ríkisins væri 100 milljarðar króna. En hann er það. Reikningurinn eftir hrunið er orðinn svo stór nú þegar að vaxtakostnaður ríkisins á þessu ári verður væntanlega 104,5 milljarðar kr. Við fáum því ekki breytt. Tjónið er orðið. Skaðinn er skeður, eins og hv. þm. Pétur Blöndal orðar það stundum af hreinskilni þegar hann ræðir þessi mál af fullu viti.

Að það sé eitthvað að því að skoða upptöku orku-, auðlinda- og umhverfisgjalda við þessar aðstæður og reyna þannig að dreifa byrðunum, m.a. á þau stóru og sterku fyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega núna á gengisfalli krónunnar og af fleiri ástæðum og búa sannarlega við góða afkomu, það skrifa ég ekki upp á. Það verða almenn gjöld, kolefnislosunargjöld, auðlindagjöld, sem leggjast jafnt á alla, einstaklinga sem fyrirtæki. Það er grundvöllur þeirra. Það er hugsunin.

Þannig að (Forseti hringir.) tala um það sem sérstaka andúð á atvinnurekstri er bara fjarri öllu lagi.