138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[16:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir þau gleðilegu tíðindi dagsins sem hæstv. ráðherra hefur farið aðeins yfir í ræðum sínum og einnig birt í fjölmiðlum um jákvæða þætti sem koma út úr einstaka málum í efnahagsmálunum, eins og samningar við Landsbankann og endurreisn hans og fleira slíkt.

Mig langar þó að beina til ráðherrans einni fyrirspurn og koma með aðra ábendingu. Fyrirspurnin er í anda þess sem m.a. kom fram í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og einnig í ræðu hæstv. ráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þar sem hann fjallaði um árangur sveitarfélaganna, hann hefði bæði verið miklu betri og skjótvirkari en árangur ríkisins í efnahagshruninu. Ég tel það vera m.a. vegna þess að hjá sveitarfélögunum hafa menn endurskoðað fjárhagsáætlanir reglulega allt árið og verið með rauntölur á hverjum tíma og þar af leiðandi getað metið hvernig staðan er á hverjum tíma. Mig langaði að heyra frá ráðherranum hvort hann hygðist nú þegar beita sér fyrir því með einhverjum hætti að vinnubrögðunum verði breytt, þannig að við munum upplifa sambærilegan árangur hjá ríkisvaldinu eins og hjá sveitarfélögunum.

Ábendingin er varðandi atvinnumálin. Auðvitað er jákvætt ef atvinnuleysið verður minna en menn hafa óttast. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér. Fyrst og fremst þarf stöðugleika í efnahagsmálunum en það þarf líka stöðugleika í atvinnumálum. Það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin, á þessum tímum eins og öðrum, sé samstiga. Það hefur þessi ríkisstjórn því miður ekki verið þegar kemur að orku- og virkjanamálum. Þegar talað er um góða stjórnsýslu þá er auðvitað ekki góð stjórnsýsla að annars vegar nota þrjá mánuði í að sitja á málinu og skipta svo um skoðun frá fyrrverandi (Forseti hringir.) umhverfisráðherra en í öðrum málum að liggja á aðalskipulagi í sveitarfélögunum við Þjórsá (Forseti hringir.) svo mánuðum skiptir án þess að staðfesta það.