138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

ókeypis skólamáltíðir.

39. mál
[14:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þessa fyrirspurn. Mig grunar að við þingmaður séum sammála um að það væri veruleg bót ef nemendur í grunnskólum ættu kost á ókeypis eða gjaldfrjálsi heitri máltíð einu sinni á dag. Það er rétt að þetta tíðkaðist í Finnlandi þegar kreppan þar skall á og þar er þetta löng hefð sem mér skilst að eigi jafnvel rætur að rekja til stríðsáranna þó að ég þori ekki alveg að fara með það hér. Það var rætt um það á sínum tíma að þar hefðu börnin jafnvel mætt svöng í skólann á mánudegi eftir að hafa farið heim til sín yfir helgi.

Við sáum reyndar að skólar brugðust margir hverjir við kreppunni í fyrrahaust með því að hafa frumkvæði að því að bjóða upp á hafragraut á morgnana. Ég þekki mörg dæmi þess og nemendur hafa nýtt sér þetta feikilega vel, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um land. Þar áttu skólarnir sjálfir frumkvæði, en hins vegar liggur fyrir að kostnaður við gjaldfrjálsar skólamáltíðir yrði nokkur. Í fyrravor skoðaði ég þessi mál, þ.e. gerði könnun á því hver hugsanlegur kostnaður af þessu gæti verið. Mér finnst ágætt að ræða það hér því að árið 2008 voru nemendur í grunnskóla 43.511 og það er miðað við 180 daga viðveru nemenda í skólunum árlega. Kostnaður sveitarfélaga er misjafn við skólamáltíðir þannig að það er nokkuð erfitt að slá á þetta en skólar hafa innheimt allt frá 180 kr. á máltíð hjá þeim sveitarfélögum sem greiða mest niður og upp í 428 kr. á máltíð hjá sveitarfélögum sem greiða þær þá ekkert niður. Það er hins vegar nokkuð erfitt að áætla kostnað því að aðstæður eru að sjálfsögðu ólíkar. Hér erum við að taka raundæmi um kostnaðinn sem er rukkaður inn. Stundum er maturinn keyptur inn, annars staðar er hann búinn til á staðnum en við miðum við að 428 kr. séu efri mörkin.

Ef við miðum við að allir nemendur grunnskóla á Íslandi, og þá erum við að tala um alla, frá 6 ára bekk og upp úr, fengju máltíð einu sinni á dag í skólanum í 180 daga væri heildarkostnaður um 3,5 milljarðar. Ef við reiknum með því að 85% nemenda að jafnaði borði í skólum landsins og einhverjir kennsludagar falli niður má gera ráð fyrir heildarkostnaði upp á um 2,8 milljarða. Hlutfall þeirra sem borða í skólunum núna er ekki þekkt en hins vegar má segja að hugsanlega nýttu fleiri sér möguleikana ef máltíðin yrði endurgjaldslaus. Þó virðist sem hlutfallið sem nýtir sér þessa máltíð sé mjög hátt eins og staðan er núna, þ.e. þó að gjald sé rukkað.

Í vor þegar ég lét taka þetta saman var ekki til heildarsamantekt. Mér er ekki kunnugt um að hún hafi verið gerð síðan um hversu mikið sveitarfélögin greiða niður máltíðir en hins vegar liggja fyrir upplýsingar um ólíkt verð milli sveitarfélaga. Algengt verð er 260–280 kr. á nemanda fyrir hverja máltíð. Þá má segja að sveitarfélög greiði að jafnaði niður 35–40%, rúmlega milljarð. Þessar tölur eru auðvitað ónákvæmar, það var bara slegið á þetta fyrir mig. Þetta er ólíkt eftir sveitarfélögum og hér erum við að tala um bráðabirgðatölur. En það má ætla að útlagður kostnaður nemenda sé um 1,8 milljarðar á ári. Ef við hugsum okkur þetta sem samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og ef við bara reiknum þetta einfalt þannig að við drögum kostnað sveitarfélaga frá er kostnaður sem fellur á nemendur um 1,8 milljarðar sem væri þá áætlaður kostnaður sem ríkið þyrfti að leggja út fyrir.

Við lifum tíma þar sem er mjög erfitt að forgangsraða í erfiðum fjárlögum. Þegar við skoðuðum málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem við hv. þingmaður höfum rætt um, lögðum við talsvert á okkur til að geta hækkað framfærsluna með því að reikna út sparnað á móti. Þetta er mál sem ég legg að sumu leyti til jafnaðar, það snýr að ákveðnu velferðarhlutverki menntakerfisins, hvort sem við erum að tala um framfærslu með námslánum eða máltíðir í skólum. Ég vil ekki lofa neinum kostnaði frekar en venjulega í þessum stól en mér fyndist æskilegt að við skoðuðum þessi mál betur og færum nánar ofan í saumana á því hvort þetta væru ekki möguleikar og hvort við sæjum jafnvel hugsanlega möguleika á sparnaði á móti. Ég er sammála þingmanninum um að þetta er velferðarmál sem við þurfum að horfa til á svona tímum.