138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

fækkun opinberra starfa.

35. mál
[14:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Það er mjög mikilvægt að vera vel á varðbergi núna þegar menn fara að skera niður í opinbera geiranum, að það verði ekki gert eingöngu og ryksugað upp á landsbyggðinni. Það er mikil hætta á að menn skeri oft nefnilega það sem er fjærst sér og við verðum að passa það. Ég fagna því sem hæstv. fjármálaráðherra segir hér, að það verði fylgst með þessu og það verði passað upp á að ekki verði farið að ryksuga upp þessar litlu stofnanir sem hefur tekið ár og áratugi að berjast fyrir að færu út á landsbyggðina.

Eins minni ég a að það er líka hægt að færa stofnanir frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Það hefur oft reynst mjög vel.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um tvennt, annars vegar: Eru einhverjar áætlanir um að færa tryggingaþáttinn frá sýslumannsembættunum yfir til félagsmálaráðuneytisins? Síðan var ég að glugga í fjárlögin og skoða það sem fjallað er um sýslumannsembættin og sá að þar er einmitt vitnað í sóknaráætlun 20/20 sem er verið að vinna að. Ég velti fyrir mér: Er þeirri vinnu lokið og er þá búið að kynna hana? Það er farið að vitna sérstaklega í hana í fjárlagafrumvarpinu.