138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

ummæli seðlabankastjóra um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í viðtalsþætti í vikunni kom það fram hjá seðlabankastjóra Íslands í tengslum við umræðu um för hans til Istanbúl þar sem hann átti m.a. fund með framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að ein meginástæða þess að sjóðurinn tæki ekki fyrir endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands væri sú að sjóðurinn óttaðist að Evrópusambandsríkin mundu fella tillögu um endurskoðun á áætluninni. Ég verð að segja að þetta voru mér þó nokkuð mikil tíðindi því að þrátt fyrir að við höfum vitað að Hollendingar og Bretar eru á móti málinu óraði mig ekki fyrir því að það væri almenn andstaða gegn endurskoðun áætlunarinnar hjá Evrópusambandsríkjunum.

Ég vil þess vegna bera það upp við forsætisráðherra hvort þetta kunni að vera á misskilningi byggt hjá seðlabankastjóra Íslands eða hvort hæstv. forsætisráðherra sé kunnugt um almenna andstöðu Evrópusambandsríkjanna við endurskoðun áætlunarinnar. Ef forsætisráðherra er kunnugt um slíka almenna andstöðu er eðlilegt að spurt sé: Hvað hefur ríkisstjórn Íslands gert til að bregðast við þeirri stöðu? Þingheimur hefur staðið í þeirri trú að það væri andstaða tveggja ríkja einkum sem hafi komið í veg fyrir þessa endurskoðun og þetta hafi allt saman hangið á lausn Icesave-deilunnar, eins og ríkisstjórnin hefur greint frá málinu. En ef það er svo að það er almenn andstaða meðal allra Evrópusambandsríkjanna við endurskoðun áætlunarinnar hljótum við að krefjast þess að ríkisstjórnin haldi uppi okkar málstað og mótmæli því harðlega.