138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

atvinnu- og orkumál.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður bara að átta sig á því að það eru þær aðstæður í þjóðfélaginu að ekki er hægt að hlífa orkufyrirtækjunum eitthvað sérstaklega. Þau eru auðvitað mikilvæg í atvinnustarfseminni. Þau hafa þó verið með þeim fáu sem hagnast hafa lítillega á sl. mánuðum eins og útflutningsfyrirtækin og ferðaiðnaðurinn. Ég tel því að við eigum að skoða það raunhæft að setja hóflegan skatt á þessi orkufyrirtæki. Ég spyr um rökin fyrir því af hverju á sérstaklega að hlífa orkufyrirtækjunum meira en ekki einhverjum öðrum fyrirtækjum eða heimilunum. Ef við skattleggjum ekki orkufyrirtækin þarf auðvitað að setja meira á heimilin, hækka tekjuskattana meira, hækka neysluskatta o.s.frv. (Gripið fram í.) — Þær eru gallaðar að mörgu leyti en samt hef ég sagt að það sé rétt og eðlilegt að skoða þær. Allar tillögur sem koma fram (Gripið fram í.) á auðvitað að skoða.

Við erum ekkert að tala niður orkufyrirtækin, það er rangt. Þau gegna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu atvinnulífsins eins og önnur (Forseti hringir.) starfsemi þannig að það er alrangt. En það er ekki hægt að hlífa álfyrirtækjunum og láta aðra um að borga brúsann. (Gripið fram í.)