138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

málefni hælisleitenda.

[10:51]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja um hvernig við Íslendingar komum fram við það fólk sem leitar hér hælis. Það liggur fyrir að við höfum ekki staðið okkur nógu vel í þeim efnum, samanber t.d. dóm Hæstaréttar frá 12. mars og álit umboðsmanns Alþingis frá 1. apríl á þessu ári. Tilefnið núna er málefni þriggja hælisleitenda sem mótmælt vegna var í gær, tveggja frá Írak og eins frá Afganistan sem nú á að endursenda til Grikklands. Ég vil samt í byrjun taka fram að aðför eins og gerð var að heimili dómsmálaráðherra vegna þessa máls í gærkvöldi er algerlega óásættanleg og gróft brot á friðhelgi einkalífs þess embættismanns.

Ég vil spyrja: Er búið að senda þessa menn til Grikklands, hæstv. dómsmálaráðherra? Telur ráðherra réttlætanlegt að senda þá þangað? Var leitað álits Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við undirbúning úrskurðar í málefnum mannanna innan dómsmálaráðuneytisins, eins og nefnd um málefni hælisleitenda hefur lagt til að verði gert? Það má koma fram að Flóttamannastofnunin er almennt á móti því að senda fólk aftur til Grikklands. Enn fremur hefur fulltrúi Rauða krossins lagt til að það verði ekki gert af hálfu Íslands. Ef við kíkjum betur á málefni þessara einstöku þriggja manna er einn þeirra 19 ára og annar hefur þurft að vera undir læknishendi vegna þess andlega álags sem fylgt hefur aðstæðum hans. Lögmaður mannanna sendi bréf með athugasemdum til dómsmálaráðuneytisins vegna afgreiðslu ráðuneytisins og fékk ekki efnislegt svar við athugasemdum sínum. Hann hefur lagt drög að stefnum til dómstóla. Fyrir liggur að mennirnir voru handteknir í gær án þess að fá að kveðja vini sína. Er þetta nauðsynlegt? Og hæstv. dómsmálaráðherra, á ekki að leyfa þessum mönnum að leita réttar síns fyrir íslenskum dómstólum?