138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að heyra frá hv. þingmanni að hér vantar inn grundvallaratriði eins og t.d. afnám verðtryggingar. Ég er meira en fús til þess að aðstoða Sjálfstæðisflokkinn við að endurprenta þetta plagg enda er búið að prenta það einu sinni og ef þeir vilja prenta það aftur með minni hjálp er það sjálfsagt mál.

Að sjálfsögðu er Green Globe-verkefnið á Snæfellsnesi til fyrirmyndar. Það er fyrirmynd en það er ekki notað sem fyrirmynd. Flestir líta á það sem einangrað fyrirbæri og við skulum ekki gleyma því að þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð var undir stærsta ósnortna landsvæði í allri Norður- og Vestur-Evrópu. Þetta svæði var einstakt á mælikvarða heillar heimsálfu og það var eyðilagt.

Við skulum ekki heldur gleyma því að afleidd störf af stóriðju eru einhver og kannski mörg en það eru afleidd störf af öllum öðrum atvinnugreinum líka. Það að telja upp störf í áliðnaði og bæta svo við afleiddum störfum sem sérstökum bónus áliðnaðarins er einfaldlega ekki rétt. Það eru miklu fleiri afleidd störf í mörgum öðrum atvinnugreinum en áliðnaði. Ég leyfi mér að benda á að þau afleiddu störf sem voru t.d. fólgin í að flytja ál frá landinu og súrál til landsins voru lögð af undir forustu Sjálfstæðisflokksins þegar kaupskipaflotanum var flaggað út til Bermúda.