138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[16:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Opinberlega er tilgangurinn með veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér þríþættur. Í fyrsta lagi að endurreisa bankana og gera þeim kleift að standa á eigin fótum. Í öðru lagi að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og viðhalda afgangi af fjárlögum til að lækka skuldir ríkissjóðs. Í þriðja lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og gera gengi krónunnar stöðugt.

Hvað varðar fyrsta liðinn verður endurreisn bankanna fjármögnuð með útgáfu á sérstökum skuldabréfaflokki hér innan lands. Ekki þarf lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess. Íslendingar gera sér vel grein fyrir því að það þarf að ná niður hallarekstri ríkissjóðs þótt við séum ósammála um leiðir og hversu hratt þurfi að gera það. Þá var ríkissjóður um tíma rekinn með góðum afgangi og átti fjármuni á bók fyrir hrun. Við þurfum því ekki sjóðinn til að kenna okkur neitt um það.

Þá er eftir síðasti liðurinn, traust á íslenskum efnahag og stöðugt gengi. Miklar efasemdir eru uppi um hvort lánsfé geti tryggt gengisstöðugleika, lán sem getur mögulega haldið gengi krónunnar stöðugu til skamms tíma, eða eins og í Argentínu í heilar 45 mínútur, en alls ekki til langs tíma. Hvað stendur þá eftir? Jú, kannski óopinbera skýringin, sú að tryggja það að erlendir kröfueigendur fái sitt greitt.

Ég tel að lánsfé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eigi væntanlega að nota til að við getum endurgreitt eldri lán 2011 og 2012 og til að tryggja að Landsvirkjun geti staðið við skuldbindingar sínar, svo ég nefni ekki Icesave.

Framsóknarmenn hafa bent á aðrar leiðir en hefðbundin lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum til að leysa þetta vandamál. Í fyrsta lagi þyrfti að skoða hvort ekki væri hægt að fá lánalínur í stað beinna lána. Lánalínur eru eins og yfirdráttarheimild þannig að aðeins er dregið á þær ef engir aðrir kostir eru í boði. Í stað þess að greiða vexti af allri upphæðinni eins og gert er ráð fyrir í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru vextir aðeins greiddir af þeirri upphæð sem nýtt væri. Þar munar um minna.

Í öðru lagi mætti áður en lánalínurnar yrðu nýttar bjóða núverandi eigendum þessara skuldabréfa upp á önnur hagstæðari skuldabréf til lengri tíma. Þannig hefur Landsvirkjun þegar hafið undirbúning að endurfjármögnun sinna skulda. En hefur Seðlabankinn gert það sama? Þá þarf að tryggja að sem best verð fáist fyrir eignir Seðlabankans, þar á meðal FIH-bankann í Danmörku.

Framkoma sjóðsins hér á landi hefur verið honum til skammar. Hlutverk hans virðist fyrst og fremst vera að innheimta skuldir erlendra lánardrottna. Ráðgjöf hans hefur ekki verið upp á marga fiska, hann hefur ekki boðið upp á áðurnefndar lánalínur, heldur kemur frumkvæðið héðan. Og auðmýkingin mun svo ná hámarki þegar sjóðnum er nú ætlað að afgreiða endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands á næstu 10 dögum með skriflegu leyfi frá Bretum og Hollendingum sem haldið hafa Íslendingum í herkví í gegnum sjóðinn þar til ríkisstjórnin kokgleypti Icesave-samninginn.

Á meðan mega væntanlega Íslendingar éta það sem úti frýs.