138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég skil það er það hluti af aðgerðunum, að gera eftirgjöf skulda ekki skattskylda í sértækum tilvikum. Auðvitað gætum við sett okkur það pólitíska markmið að gera hina almennu eftirgjöf skulda sem ég hef talað um ekki heldur skattskylda ef við kjósum svo.

Varðandi þann þátt aðgerðanna sem gerir fólki kleift að standa í skilum og ég hef fagnað, það er hinn almenni þáttur aðgerðanna. Ég vil leggja áherslu á að þessi aðferð, að tengja afborgun lánanna núna við greiðslujöfnunarvísitölu, getur falið í sér gildru. Meginþorri lántakenda á Íslandi muni upplifa sig í gildru eftir nokkur ár þegar og ef kaupmáttur fer að aukast og atvinnustig líka. Ég held að það sé ekki góð staða og ég held að það sé lífsnauðsynlegt að við íhugum hvaða skref við eigum að taka næst til að koma í veg fyrir að við lendum í þeirri stöðu. Þá sting ég upp á því að við förum út í skuldbreytingar sem fela í sér almenna leiðréttingu á höfuðstól, að það sé ekki endilega skilyrði fyrir skuldbreytingu að virði skuldarinnar rýrni ekki og við getum þá breytt skattalögum til að svo megi verða.

Varðandi gagnsæið. Ég les í frumvarpinu sem hér liggur fyrir að auðvitað á að virða jafnræði. Það stendur til að hafa þetta gagnsætt, sanngjarnt og allt svoleiðis og viljinn er góður. Ég legg áherslu á hversu vandasamt verkið er og það þarf að ræða á hinum pólitíska vettvangi vegna þess að þar blasa við margar og erfiðar pólitískar spurningar. Ef við tökumst ekki á við þær af festu geta þær skapað mikið ósætti í samfélaginu.