138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að hlusta á stjórnarliða, nú síðast hæstv. utanríkisráðherra sem fullyrðir það — hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði að greiðsluþakið mundi halda. Við samþykktum frumvarp með ákveðið greiðsluþak. Það er alveg augljóst að hv. þingmaður þarf að kynna sér málið betur því sá stuðningur sem lagt er upp með, út frá þessum forsendum, hlýtur að vera í uppnámi því það liggur alveg hreint og klárt fyrir að við þurfum að greiða vextina hvort heldur sem er. Það er ekki inni í þakinu. Hvaða upphæð erum við að tala um, virðulegi forseti? 200 milljarða að lágmarki. Alveg sama hvernig gengur. Hvað eru 200 milljarðar? Það eru fjórir nýir háskólaspítalar og við erum að tala um það núna að þessi ríkisstjórn getur ekki skorið niður það sem snýr að þessu ári. Þeir komu með fjárlagafrumvarp sem er ekki tilbúið og þeir segja að það sé lýðræðislegt að þingið finni einhvern flöt á þessu. En þeir ætlast til þess að það verði ekki farið eftir því sem var samþykkt í vor og þeir sögðu að væri endapunktur, þeir sögðu að það þyrfti ekki að taka upp samningana, þetta mundi rúmast innan samninganna, en nú ætlast þeir til þess að við tökum þetta allt upp aftur og bætum við 200 milljörðum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við hljótum að kalla eftir afstöðu þeirra þingmanna Vinstri grænna sem hafa talað því augljóslega byggðu þeir skoðun sína á misskilningi og það er öllum ljóst sem þetta skoða. Þeir feiluðu á 200 milljörðum.