138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér sem 1. flutningsmaður fyrir tillögu til þingsályktunar um afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu. Meðflutningsmenn eru fjölmargir. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stendur að þessu máli allur og nánast allur þingflokkur Framsóknarflokksins, fyrir utan held ég einn þingmann. Ég trúi því, frú forseti, þegar stuðningsmenn úr öllum flokkum eru lagðir saman, að við séum með meiri hluta fyrir þessu ágæta máli á þingi. Ég vil því skora á þingmenn úr öllum flokkum að fylgja okkur að máli.

Tillagan orðast svo:

„Alþingi ályktar að skora á umhverfisráðherra að afturkalla þá ákvörðun að fela Skipulagsstofnun að úrskurða að nýju um hvort fram skuli fara sameiginlegt mat á Suðvesturlínu, tengdum virkjunum og öðrum framkvæmdum.“

Það þarf ekki að rekja forsögu þessa máls. Hún er öllum kunn hér í þessum sal og er rakin ítarlega í greinargerðinni. Mig langar að ræða svolítið í þeim stutta tíma sem ég hef í rauninni um pólitíkina að baki þessari ákvörðun, vegna þess að mér þykir hún allnokkur.

Hæstv. ráðherra hefur sagst hafa tekið þessa ákvörðun í nafni góðrar stjórnsýslu. En á það hefur verið bent hér í þessum sal og af fjölmörgum í samfélaginu, þar á meðal Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og fleiri aðilum, að þvert á móti gengur þetta gegn góðri stjórnsýslu. Góð stjórnsýsla á að vera þannig að menn geti treyst því að réttir frestir séu virtir, að reglum sé ekki breytt eftir á, að menn geti gengið að því þegar — ég vil leyfa mér að segja þrír mánuðir eru liðnir að úrskurður á að fara fram að það verði þá ekki gengið gegn þeim úrskurði. Þannig að þetta hefur ekkert með stjórnsýslu að gera. Ég held að við ættum í þessari umræðu bara að fella tjöldin og ræða þetta eins og á að ræða þetta. Þetta hefur með það að gera að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á móti stóriðju. Það er skoðun og það er sjónarmið sem ég er ósammála, en ég ber mikla virðingu fyrir því sjónarmiði Vinstri grænna. Vinstri grænir eru á móti stóriðju. Þeir eru á móti fleiri álverum hingað til lands. Og þeir hafa barist mjög hatrammlega fyrir þeim málstað og barist fyrir því að „eitthvað annað“ verði sett á dagskrá en stóriðja. Við höfum bent á það mörg hér sem höfum verið kölluð stóriðjusinnar, sem ég veit nú ekki alveg hvort er réttnefni, að það er fjölmargt „eitthvað annað“ í deiglunni. Ég vil líka geta þess að það er nefnilega svo margt „eitthvað annað“ sem skapast af þessum ágæta iðnaði, áliðnaði, og mig langar til að nefna hérna í framhjáhlaupi af því það er mikið talað um nýsköpun.

Það eru a.m.k. þrjú nýsköpunarfyrirtæki sem koma upp í huga mér sem hafa orðið til beinlínis út frá álverinu í Straumsvík. Þar get ég nefnt fyrirtæki sem heitir Stímir, sem er hluti af VHE í Hafnarfirði og það er stofnað af starfsmönnum Ísals. Það hannar og þróar og framleiðir margvíslega hátæknilegan vélbúnað sem notaður er í álvinnslu. Annað fyrirtæki, Alur, rekur endurvinnsluverksmiðju fyrir álgjall og það er staðsett í Helguvík, sama stað og þessi umrædda framkvæmd sem við erum að ræða hér. Það tekur við gjalli frá Grundartanga og Straumsvík og sendir endurunnið ál til baka í álverin. Þriðja fyrirtækið sem ég vil nefna er Blendi, sem er endurvinnslufyrirtæki fyrir álver, staðsett í Hafnarfirði. Þetta eru þrjú nýsköpunarfyrirtæki sem hafa sprottið upp úr þessum iðnaði.

Þetta var framhjáhlaup.

Það sem ég er að halda hér fram er það að þetta er pólitík Vinstri grænna og þá er bara að segja það hreint út. Nei, hæstv. ráðherra hefur kosið að kenna stjórnsýslunni um. Og fyrir mér er það pólitískur heigulsháttur. Mér finnst mjög leiðinlegt að nota svo stórt orð, því ég virði hæstv. umhverfisráðherra og tel ekki að hún meini mikið illt með þessu, en það er ekki stórmannlegt að kenna stjórnsýslunni um það að vera frústreraður yfir því að stefna manns nær ekki fram að ganga í ríkisstjórn. Stöðugleikasáttmálinn var undirritaður 25. júní 2009 af þessari ríkisstjórn sem hæstv. umhverfisráðherra á aðild að og þar segir beinum orðum, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda samanber þjóðhagsáætlun, svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík.“

Síðan segir annars staðar, með leyfi forseta:

„Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.“

Þetta er 25. júní. Ef mig misminnir ekki, þá rann frestur hæstv. umhverfisráðherra út 24. júní. Af hverju úrskurðaði hæstv. ráðherra ekki þá? Af hverju var stöðugleikasáttmálinn undirritaður með þessum framkvæmdum sérstaklega tilteknum? Af hverju voru hlutirnir ekki bara sagðir eins og þeir eru?

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, 1. þm. Suðurkjördæmis, hefur verið dyggur stuðningsmaður þessara framkvæmda og ég dreg enga dul á stuðning hans til þessara framkvæmda. Hann sagði á borgarafundi í Reykjanesbæ á dögunum að ákvörðun umhverfisráðherra væri afar óheppileg. Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum núna í síðustu viku eða um liðna helgi sagði hann að það væri ljóst að það væri einn stjórnmálaflokkur á móti svona framkvæmdum, en við ættum hins vegar að taka höndum saman og láta það ekki tefja málið. Ég skal taka höndum saman með hv. þingmanni og passa upp á það að ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra tefji ekki málið, ef hann tekur höndum saman með mér og samþykkir þessa þingsályktunartillögu, þar sem þessi ákvörðun er dregin til baka, vegna þess að við höfum ekki tíma til að bíða eftir að þetta mál mjatli í stjórnkerfinu. Og af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að það eru þúsundir einstaklinga sem ganga hér um atvinnulausir. Við erum með samfélag sem kallar eftir fjárfestingu. Kallar eftir nýju fjármagni, sem verður ekki tekið að láni, sem við þurfum ekki að borga vexti af. Þetta er nákvæmlega þannig framkvæmd sem við þurfum á að halda, hvað svo sem mönnum finnst um álver og stóriðju yfir höfuð. Ríkisstjórnin er búin að skuldbinda sig í þetta og við höfum ekki tíma til að bíða eftir því að þetta gangi sinn veg í stjórnkerfinu, vegna þess að hver veit hversu langan tíma það tekur?

Skipulagsstjóri kom á fund okkar þingmanna Suðurkjördæmis og sagði að þetta gæti verið frá tveimur til þremur mánuðum upp í tvö ár, allt eftir því hvort þetta yrði staðfest eða ekki. Og tveir til þrír mánuðir er of langt. Orkuveita Reykjavíkur þarf í þriðju viku í nóvember að láta vita hvort hún ætli að taka túrbínurnar sem þarf að nota vegna þessara framkvæmda. Í þriðju viku af nóvember, það er eftir fjórar til fimm vikur. Hún þarf að láta vita, annars þarf hún að borga eitthvert skammargjald og fara aftast í röðina. Og hvað gerist þá? Þá tefst þessi framkvæmd miklu meira en sem nemur þessum eina mánuði sem talað er um að hún gæti tafist út af ef skipulagsstjóri fer að klára þetta núna. Ég held að skipulagsstjóri muni vanda sig, vegna þess að í úrskurði hæstv. umhverfisráðherra er slegið á puttana á skipulagsstjóra með mjög ósmekklegum hætti finnst mér. Ég held að skipulagsstjóri muni taka allan þann tíma sem hann þarf til þess að ganga úr skugga um það að hans fyrri ákvörðun sé rétt. Ef hann tekur sömu ákvörðun, þá mun hann passa sig og gæta þess í hvívetna að hún verði algjörlega rökstudd og það tekur tíma. Þannig að við höfum ekki tíma til að bíða eftir þessu. Við snúum þessu bara við hér í þinginu og sýnum nú þann samtakamátt sem fólk á Suðurnesjum er að kalla eftir.

Ég get nefnt hérna dæmi. Við vorum að tala um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, tölum um hann hér á hverjum degi. Lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er um tveir milljarðar dollara. Framkvæmdin bara við verksmiðjuna í Helguvík kemur með 1,8 milljarða dollara inn í landið í beinni fjárfestingu. Af þessari upphæð þurfum við ekki að greiða vexti. Af þessari upphæð fáum við tekjur, vegna þess að ríkissjóður fær skatttekjur af þessu öllu saman. Og vegna þessarar upphæðar þurfum við ekkert að undirgangast einhver skilyrði frá einum eða neinum um það hvernig við eigum að hegða okkur og hvað við eigum að gera annars staðar í ríkisbúskapnum. Það er vert að hafa í huga. Þetta verkefni það skapar í kringum 2.500 störf á uppbyggingartímanum. Það eru 7 milljarðar í tekjur fyrir ríkissjóð, skatttekjur, plús það að ef þessir 2.500 einstaklingar mundu þiggja atvinnuleysisbætur, þá væru það aðrir 5 milljarðar. Þannig að þarna eru þá komnir, með þessum aftanáumslagsreikningi, 12 milljarðar, milljarður á mánuði í auknar tekjur eða lækkuð útgjöld fyrir ríkissjóð. Okkur munar um þessa peninga, virðulegi forseti. Og töf er skaðleg. Fyrir utan nú það hvaða skilaboð þetta er að senda til umheimsins.

Ég hef það fyrir satt að þeir aðilar sem eru að leita sér að fjármögnun til framkvæmda á Íslandi, í bönkum í útlöndum, fái nú þær fréttir að þeir þurfi að borga pólitískt aukaálag ofan á allt hitt. Ofan á þann óstöðugleika í efnahagsmálum sem við höfum orðið að glíma við, þá sé komið álag, gjald, fyrir fjárfesta sem ætla sér að koma með fjármuni til Íslands, vegna pólitísks óstöðugleika. Við erum að verða eins og Suður-Ameríkuríki í kringum 1960–1970. Þetta er ótækt. Og við eigum að passa upp á það að við glutrum ekki frá okkur þeim tækifærum sem við höfum hér allt í kring til að byggja upp þetta samfélag og koma okkur af slíkum skammarskrám í útlöndum, virðulegur forseti.

Ég sagði í upphafi að þetta væri ekki stjórnsýsluákvörðun og hélt því fram að þetta snerist bara um pólitík. Ég stend við það. Mér finnst þessi ríkisstjórn sýna einbeittan brotavilja í svo mörgu. Orkuskattarnir eru eitt. Ég ætla nú ekki að fara að kenna hæstv. umhverfisráðherra um þá, en það tengist þessari umræðu, vegna þess að þar er líka verið að brjóta á þessum sömu fyrirtækjum, fjárfestum sem eru að koma hingað til lands, sem eru búnir að skrifa undir fjárfestingarsamninga og það er einbeittur brotavilji ríkisstjórnarinnar að snúa þeim samningum við. Við sáum hér minnisblað sem þáverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, núverandi pólitískur aðstoðarmaður, kynnti fyrir efnahags- og skattanefnd í mars. Þá áttu auknar skatttekjur sem af því hlytust að brjóta samninga við þessi stóriðjufyrirtæki, að vera minni en tjónið sem hlytist af því að láta þá standa. Þetta er náttúrlega ekki hægt.

Ef maður fer að spá í þessa orkuskatta alla saman, iðnaðarráðherrann segir að stóriðjan eigi ekki bara að borga þetta, hæstv. landbúnaðarráðherrann segir að garðyrkjan eigi ekki að borga þetta. Forsætisráðherra segir að þetta eigi að vera 20 aurar. Fjármálaráðherra segir þetta eigi að vera króna. Iðnaðarráðherrann segir að þetta bara gangi ekkert upp. Hver eru skilaboðin, virðulegur forseti? Hver á að borga þetta? Verða það þá heimilin á endanum sem borga þetta? Ég held að það geti ekki verið akkúrat það sem við þurfum helst.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum benda hæstv. umhverfisráðherra á það að hvort sem henni líkar það betur eða verr þá munum við nota ál í framtíðinni. Ég held að formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna hafi haft rétt fyrir sér þegar hann sagði ekkert því til fyrirstöðu að nota endurnýjanlega orku Íslendinga til að knýja álver, en hæstv. umhverfisráðherra sagði reyndar að hann hefði sagt allt annað og hann gengi út frá því að við þyrftum að nota ál í framtíðinni. En, vitið hvað, ég held að við þurfum að nota ál í framtíðinni. Ég held að þegar við fáum okkur skyr og tökum állokið af skyrdósinni þá þurfum við að hugsa þetta. Þegar við förum út að hjóla, því við notum ekki bíl, þá verðum við að gæta þess að hjólin, alla vega þau flottustu, eru yfirleitt úr áli. Ef við lítum í spegilinn á morgnana, hann er yfirleitt búinn til úr áli. Ef við hlustum á geisladisk í staðinn fyrir að hlusta á leiðinlegar fréttir á morgnana þegar við stöndum fyrir framan spegilinn, þá verðum við að gæta þess að geisladiskur er líka úr áli. Þannig að það er náttúrlega barnaleg fjarstæða að halda því fram að þetta sé eitthvað sem við höfum áhrif á, hvort ál verði framleitt eða ekki. Auðvitað verður það framleitt og þá eigum við að taka því fagnandi ef traust fyrirtæki vilja koma hingað til lands, ekki síst í því árferði sem við erum í núna, þá eigum við að taka því fagnandi og greiða götu þeirra eins og ríkisstjórnin skuldbatt sig til þess að gera í stöðugleikasáttmálanum, þá eigum við að greiða götu og ryðja úr vegi hindrunum, vegna þess að það mun koma okkur öllum til góða. Það mun koma þeim 1.625 Suðurnesjamönnum sem ganga um atvinnulausir til góða.

Ég bið hæstv. umhverfisráðherra, sem ég þakka kærlega fyrir að bregðast snöfurmannlega við og koma og vera við þessa umræðu, ég kann að meta það. Ég bið hana um að láta það ósagt sem hún lauk grein sinni á (Forseti hringir.) í Morgunblaðinu um daginn, að þeir sem tala fyrir þeim málstað sem ég hef verið að færa hér, að við séum að gæta hagsmuna einhverra. Ég er ekki að gæta hagsmuna neinna nema (Forseti hringir.) fólksins á svæðinu sem gengur um atvinnulaust og okkar allra, vegna þess að við þurfum á fjármunum að halda til að reisa við þetta samfélag.