138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:20]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef því miður verið fjarverandi mest af þessari umræðu vegna annarra funda en manni bregður óneitanlega við að heyra sömu gömlu tuggurnar úr stóriðjuflokkaáttinni hér í dag, sama hræðsluáróðurinn. Mig langar til að spyrja hv. þingmann nokkurra einfaldra spurninga.

Í fyrsta lagi, hvert telur hv. þingmaður vera hlutverk umhverfisráðuneytisins og umhverfisráðherra? Er það hlutverk umhverfisráðherra að beita sér fyrir góðri og vandaðri stjórnsýslu í þágu umhverfisins eða er það hennar hlutverk að framfylgja stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks? Það sem hún hefur verið að gera er að hún framfylgir góðri og vandaðri stjórnsýslu lögum samkvæmt sem umhverfisráðherra.

Telur hv. þingmaður að ráðherra eigi ekki að krefjast þess að allar upplýsingar liggi á borðum þegar endanleg ákvörðun er tekin í svona stóru máli er varðar lög um mat á umhverfisáhrifum? Telur hv. þingmaður það nægjanlegt að sumar upplýsingar liggi á borðum en ekki allar? Það er það sem umhverfisráðherra er að fara fram á, að hún hafi allar þær upplýsingar sem til þarf til að taka efnislega og vandaða ákvörðun í þessu máli.

Tími minn er senn á þrotum, tvær spurningar í viðbót: Telur hv. þingmaður það sæmandi að saka hæstv. umhverfisráðherra um að setja öll þessi áform í uppnám þegar það liggur fyrir að þetta skapar einungis töf vegna vandaðri stjórnsýslu en áður hefur verið, þegar fyrir liggur að allsendis óvíst er um orkuöflun til þessara framkvæmda, allsendis óvíst? Þá langar mig að fá upplýst hjá hv. þingmanni hvar hún ætli að fá orkuna fyrir þessar framkvæmdir og þegar í þokkabót eru allsendis í uppnámi (Forseti hringir.) fjárveitingar og fjárstreymi til þessara framkvæmda. Það væri fróðlegt að fá svör við þessum spurningum og þær eru æði margar og fleiri sem fróðlegt væri að fá svör við.