138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég barðist fyrir því að hér yrði samþykkt frumvarp sem var forsenda þess að hægt var að gera fjárfestingarsamning við Norðurál um álverið í Helguvík. Fór ég að góðum stjórnsýsluháttum? Eftir á að hyggja hygg ég að svo hafi ekki verið. Hvers vegna? Vegna þess að að því frumvarpi sem ég lagði fram og þeim samningi sem ég gerði var í ansi veigamiklum atriðum fundið af ESA og það reyndist nauðsynlegt að breyta honum. Gerði ég það vegna þess að ég væri vitandi vits að brjóta einhver lög eða einhverjar reglur? Nei, ég gerði það í góðri trú.

Það liggur alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin mun gera það sem hún getur til að framfylgja stöðugleikasáttmálanum. Það er þess vegna sem nú er verið að ljúka við Icesave. Aðilar vinnumarkaðarins vildu það. Það er þess vegna sem hún er að ljúka endurskoðun samningsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Aðilar vinnumarkaðarins vildu það. Það er þess vegna sem hún er búin að tryggja að ráðist verður í virkjun Búðarhálsvirkjunar. Aðilar vinnumarkaðarins vildu það. Svona gæti ég lengi áfram talið. Hv. þingmaður þarf ekki að efast um góðan vilja ríkisstjórnarinnar til að standa við það sem hún hefur sagt.