138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:28]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil, eins og hæstv. ráðherra sem hér talaði á undan mér, þakka fyrir þessa umræðu og get í sjálfu sér tekið undir þau orð hennar að það hafi brostið á með málefnalegri umræðu á köflum. Mér finnst umræðan reyndar hafa verið að megninu til málefnaleg þó svo að ég geti tekið undir það að menn hafi dottið í hefðbundnar skotgrafir og víglínur og sérstaklega vakti það athygli að þeir sem ekki hafa verið hérna mjög lengi gerðu það. Leyfi ég mér að vísa til orða hv. þm. Davíðs Stefánssonar þegar hann kallaði það frekju sem kom fram í þessari tillögu. Hann talaði um víglínur og hann talaði um að flutningsmenn tillögunnar einblíndu aðeins á eitt sem væri álver.

Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að segja að ég kalla það ekki frekju þegar fólk án atvinnu kallar á það að tækifæri séu nýtt til atvinnusköpunar, og ég tek það mjög alvarlega þegar kjósendur þeir sem hafa kosið okkur til starfa ákalla stjórnmálamenn um að tækifærin verði nýtt.

Mér finnst einnig rangt sem fram kom hjá þeim sama hv. þingmanni að við, flutningsmenn þessarar tillögu, einblínum aðeins á eitt. Ég taldi mig hafa farið yfir það í ræðu minni að það væri mjög mikið af þessu „einhverju öðru“ að finna einmitt á þessu sama landsvæði og einmitt þessar sömu línur sem verið er að ræða um væru einnig nauðsynlegar til að koma þessu „einhverju öðru“ í framkvæmd.

Ég ætla ekki að svara öllu því sem hér hefur komið fram en ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera við umræðuna og ég met það við hana, eins og ég sagði í upphafi. Ég vil þó segja að í lokaorðum hennar þar sem hún lagði það eiginlega þannig upp að vinstri grænir væru með einkarétt á því að hugsa um náttúruna, þar sem hún gerði hálfpartinn gys að því eða undraðist að hún greindi raunverulegan grænan vilja hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Hvort það var ætlunin hjá hæstv. ráðherra eða ekki var alla vega verið að skopast að því undir rós. En ég get glatt hæstv. ráðherra með því að vinstri grænir hafa ekki einkarétt á grænum hugmyndum og ég tel að fram hafi komið í máli allmargra flutningsmanna þessarar tillögu að við erum velflest — og ég tala fyrir munn sjálfrar mín hér, ég er mikill unnandi íslenskrar náttúru. Ég vil fyrir alla muni tryggja það að börnin mín og barnabörn og komandi kynslóðir, hvort sem við erum að tala um 2000 ár fram í tímann eða hvað, fái notið hennar og þar deilum við hæstv. umhverfisráðherra skoðun. En ég vil líka að börnin mín og leikfélagar barnanna minna sem alast upp í Reykjanesbæ fái tækifæri núna til að njóta náttúrunnar og tækifæri til að njóta þess að hafa góða atvinnu og örugga fyrirmynd. Mér finnst það bara skipta máli. Ég er svo fullkomlega sannfærð um að við getum gert þetta saman.

Varðandi stjórnsýsluþáttinn sagði hæstv. ráðherra: Það hlýtur að vera í lagi að beita heimildum til að skoða hlutina betur. Það hlýtur að vera í lagi að taka tillit til þessara grænu umhverfissjónarmiða og það hlýtur að vera í lagi að hafa góða stjórnsýslu að leiðarljósi. Já, en hæstv. ráðherra fór fram yfir alla lögbundna fresti og braut þar með á stjórnsýslunni og við gagnrýnum það ferli vegna þess að góð stjórnsýsla snýst um það öðru fremur að við getum treyst því að ákvarðanir sem teknar eru séu gildar. Ég vona svo sannarlega að ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra dragi ekki dilk á eftir sér og að við getum sameinast um að snúa þessari ákvörðun til baka. Eftir að hafa heyrt hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem hér hafa talað um óheppilega ákvörðun, að þetta sé ekki ákvörðun sem þeir hefðu tekið o.s.frv., treysti ég því að innan þess þingmannaliðs séu nokkrir stuðningsmenn þessarar tillögu. Hversu langan tíma sem Skipulagsstofnun tekur sér, ítreka ég að við höfum ekki tíma og þess vegna er brýnt að við sameinumst um þessa þingsályktunartillögu. Eins og ég fór yfir í ræðu minni eru t.d. aðeins fjórar, fimm vikur þar til taka þarf túrbínuákvörðunina. Þá er ég ekki að tala um fjármögnunina, þá er ég að tala um pöntunina. Það eru alls lags ákvarðanir fjárfesta sem er verið að taka núna þannig að þó svo að skipulagsstjóri komi með úrskurð sinn eftir tvær vikur, þrjár vikur, fjórar vikur tefst þetta ekki endilega bara um þann tíma. Þá getur þetta dregist miklu lengur og við höfum ekki efni á því sem samfélag að bíða eftir því.

Virðulegur forseti. Ég gæti staðið hér og rætt þessi mál langt fram eftir kvöldi en ég ætla að ljúka máli mínu hér og þakka aftur fyrir þessa umræðu. Þessi tillaga fer væntanlega til hv. umhverfisnefndar, ég geri ráð fyrir því, en ég óska eftir að hún verði einnig send iðnaðarnefnd til umsagnar. Ég vona að hún fái hraða og góða meðferð í þessum tveimur nefndum og að við getum tekið hana aftur til efnislegrar umfjöllunar í þingsal. Ég lýsi því yfir að til að fá hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og eftir atvikum fleiri þingmenn stjórnarliðsins á þessa tillögu og gera þeim kleift að greiða atkvæði með henni er ég algerlega tilbúin til að skoða orðalagsbreytingar með greinargerðinni.