138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[15:05]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan þá er Jafnréttisstofa auðvitað að vinna í þessu máli núna. Ég er ekki þeirrar skoðunar að einhver 2007-auglýsingaherferð sé eitthvað sem leysir þetta mál og ég held að þá séu menn svolítið að loka augunum fyrir vandamálinu ef þeir halda að með svo billegum markaðsaðgerðum sé hægt að kaupa sér frið frá þessu erfiða máli. Þvert á móti held ég að flokkarnir þurfi einfaldlega að taka upplýsta ákvörðun um það hvernig þeir ætla að haga þessum málum hver hjá sér. Ég held að kjósendur í prófkjörum viti fullvel að konur eru jafnhæfar og karlar og kjósendur hafa sýnt það í þingkosningum að þeir kusu lista sem skilaði 43% kvenna á þing. Þannig að ég held að vandamálið sé fyrst og fremst flokkanna sjálfra. Það er engin stjórnvaldsaðgerð sem getur tekið af þeim þessi völd.

Hitt er aftur annað mál, og ég get lýst því yfir sem ráðherra jafnréttismála, að ég vænti þess að flokkarnir grípi til ráðstafana til að styðja við jafnt kynjahlutfall í efstu sætunum og ég ætlast til þess að þeir geri það. Og ég held að það sé það lengsta sem framkvæmdarvaldið getur gengið í því að segja stjórnmálaflokkum fyrir verkum.

Síðan kemur að því hvernig við höldum á málum í framhaldinu. Það skiptir auðvitað miklu máli að við styðjum við þær konur sem gefa kost á sér og að það sé auðvitað greitt fyrir því að þær fái hljómgrunn í samfélaginu, en ég sé ekki og ég er ekki þeirrar skoðunar, fyrir nú utan að ekki eru til peningar í það, að einhver vitundarvakningarherferð ein og sér leysi mikinn vanda í þessu máli. Ég held þvert á móti að sagan sýni okkur að það sem skili mestum árangri sé að flokkarnir standi í lappirnar.