138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér: Heldur hæstv. ráðherra því fram að Tryggvi Þór Herbertsson hafi getað skuldbundið alla Íslendinga til að taka á sig þessa ábyrgð? Hvað er verið að reyna að segja hér? Hverju er verið að halda fram? Hvers vegna er hæstv. ríkisstjórn og ráðherrunum hverjum á fætur öðrum svo mikið í mun að sýna fram á að við höfum gert einhver mistök í fyrra sem leiði til þess að við verðum að samþykkja þetta núna? Hvernig stendur á því að menn taka ekki málstað Íslendinga og reyna að tala fyrir því að þrátt fyrir allt það sem sagt var í fyrra muni það ekki leiða til lagalegra skuldbindinga? Eða er verið að reyna að halda því fram að af því að einhverjir létu slík orð falla hafi menn siðferðislega skuldbindingu til að taka á sig kröfu upp á hálfa þjóðarframleiðslu Íslands? Hvað er það eiginlega sem verið er að halda fram hér? Hvað sagði hæstv. viðskiptaráðherra, flokksbróðir hæstv. ráðherra á þessum sama tíma? Vorum við ekki öll að reyna að tala kjark hvert í annað og segja að við mundum gera allt það sem í okkar valdi stæði til að bakka bankakerfið upp? Nema hvað? Hvað áttu efnahagsráðgjafar og ráðherrar að segja á þessum tíma? Nei, við ætlum ekkert að gera? Við munum láta þetta gossa allt saman og þeir sem hafa einhverjar áhyggjur skulu fyrst fara að hafa verulegar áhyggjur núna vegna þess að við ætlum að sitja hjá með hendur í skauti og gera ekki neitt. Þetta er ótrúlegur málflutningur.