138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vona að ég hafi ekki orðið var við einhverja fordóma hjá hv. þingmanni þegar hann velur mér vini. Ég vel mér mína vini sjálfur, bara svo það sé á hreinu.

Hv. þingmaður segir að það þurfi að eyða óvissu og koma þessu frá hvað sem það kostar og hún ætlar að taka þá miklu áhættu fyrir hönd barnanna okkar og barnabarna sem í þessu felst þegar búið er að eyðileggja þau tryggingarsjónarmið sem voru í skilmálum Alþingis frá því 28. ágúst. Þar voru settir inn mjög skynsamlegir tryggingarskilmálar og þetta var mjög sanngjarnt. Ef ríkisstjórnin hefði haft döngun í sér til að fara til útlanda og kynna það að við værum með tryggingarfyrirvara til að verja þjóðina fyrir áföllum hefðu Bretar og Hollendingar hugsanlega fallist á þá. Þeir eru miklu sterkari. Það hefði mátt kynna þetta fyrir allri Evrópu, Evrópa veit ekkert um þetta. Hún veit ekkert um þetta mál, það hefur ekkert verið kynnt. Meira að segja Norðmenn skilja þetta ekki. Það hefur ekkert kynnt, menn vita ekkert um þetta. Þetta er starf ríkisstjórnarinnar sem hv. þingmaður styður og hún býr til heilmikla óvissu. Hún tekur burtu þá öryggisventla að skuldin falli niður 2024 ef þjóðin lendir í einhverjum skelfilegum áföllum. En hv. þingmaður tekur þá áhættu fyrir þjóðina að hún skuli samt borga þó að hún lendi í því að neyðarlögin falli úr gildi, þó að hún lendi í því að íslenska krónan falli í verðgildi, þó að hún lendi í því að hér verði enginn hagvöxtur, þá skulum við samt borga.