138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og mikilvægi þess skýrir af hverju það var samþykkt af hálfu þeirra framsóknarmanna sem voru í þingsalnum áðan að taka það til afgreiðslu með afbrigðum og reyna að afgreiða það með hraði. Ég vil taka undir að samstarfið í nefndinni var einkar gott. Þótt við höfum þurft að vinna hratt var létt stemning þar og menn voru samstiga í nefndarstarfinu í því að reyna að takast á við helstu álitamálin sem eru auðvitað fylgjandi svona yfirgripsmikilli löggjöf og að mörgu leyti sérstakri. Ég held að við höfum náð ágætri lendingu í því að mörgu leyti. Upp er komin sú staða í félags- og tryggingamálanefnd að ákveðin hefð er fyrir því að menn kasti þar fram stökum. Þetta eykur pressuna á þeim sem eru í nefndinni en ég er viss um að meðlimir nefndarinnar munu axla þá ábyrgð ágætlega.

Full ástæða er þó til að taka undir gagnrýni á tímaskortinn. Ég skrifa undir þetta nefndarálit og samþykki þessa löggjöf með fyrirvara og fyrirvarinn lýtur m.a. að því að þetta er allt of seint fram komið, sérstaklega miðað við hversu margir hafa kallað eftir aðgerðum í þágu heimilanna og ekki síst fulltrúar Framsóknarflokksins á þingi. Það er full ástæða til að gagnrýna að við höfum þurft að afgreiða svona sérstaka löggjöf með svo miklu hraði. Mjög líklegt er að í kjölfarið komi upp ýmis álitamál sem þingið þarf að takast á við strax í kjölfarið. Sú sérstaka leið er því farin í nefndarálitinu og í breytingartillögum nefndarinnar að leggja til að strax og lögin verða samþykkt, ef þau verða samþykkt, verði skipaður starfshópur til að að meta hvernig lögin virka og í raun endurskoða þau eftir því sem álitamálin kunna að koma upp og gera þá tillögur jafnóðum til þingsins um lagabreytingar ef þess þarf til að sníða af helstu agnúana. Ég ætla að nefna nokkra.

T.d. varðandi þinglýsingar. Núna ætlum við að leggja til að skilmálum á fasteignaveðlánum á Íslandi verði breytt. Þau sjónarmið kunna að koma upp að einhverjir kröfuhafar geri kröfu um að þeim pappírum verði þinglýst aftur. Ef þessi álitamál koma upp verður að takast á við þau og það væri þá sá starfshópur sem verður skipaður, þverpólitískur og faglegur, sem tækist á við þau. Kannski koma þau ekki upp.

Samkeppnismál. Við leggjum til að lánastofnanir á frjálsum markaði hafi með sér samráð og þær fá þarna heimild til þess. Það er óvenjulegt og stríðir á ákveðinn hátt gegn hugsuninni í samkeppnislöggjöfinni en þetta er hluti af því að hér er um að ræða óvenjulega löggjöf. Við viljum gæta jafnræðis í því hvernig skuldarar eru meðhöndlaðir. Þetta eru lög sem heimila lánastofnunum að hafa um það samráð og svo verður að vera. Við viljum þó ekki með því drepa niður samkeppni. Verkefnið núna á næstu missirum er að koma aftur á fót lánastofnunum á Íslandi sam hafa samkeppni sín á milli um að veita skuldurum og væntanlegum lántakendum góð kjör. Eins og staðan er núna erum við að reyna að endurreisa bankakerfið og fasteignamarkaðinn og taka á mjög brýnum bráðavanda og þá þurfa þessar sömu lánastofnanir að hafa samráð sín á milli og gæta jafnræðis.

Í tengslum við þennan jafnræðisþátt vakna einnig stórar spurningar og álitamál sem við reynum að takast á við í nefndarálitinu og okkar breytingartillögum. Það þarf að hafa eftirlit með því að skuldarar, bæði fyrirtæki og heimili, séu meðhöndlaðir í anda jafnræðis og gagnsæis. Við leggjum til að stofnuð verði þriggja manna eftirlitsnefnd þar sem skuldarar geta komið með sín álitamál og umkvörtunarefni og þau fari þar í ákveðinn farveg. Við leggjum til að eftirlitsnefndin undirbúi stofnun sérstaks embættis umboðsmanns skuldara sem ég held að sé mjög mikilvægt, einkum og sér í lagi á þessum tímum. Þetta geta auðvitað orðið mjög yfirgripsmikil verkefni. Ef við gerum ráð fyrir að 5.000–7.000 manns nýti sér sértæka skuldaaðlögun geta menn ímyndað sér hversu mörg álitamál geta komið upp í tengslum við það.

Við erum að samþykkja löggjöf sem er eins konar rammi utan um frjálsa samninga. Við gerum ráð fyrir og það liggja fyrir drög að samningum milli fjármálastofnana um hvernig á að taka á skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja. Þeir samningar voru í sjálfu sér ekki sérstaklega ræddir í félags- og tryggingamálanefnd en helstu álitamálin í tengslum við þessa löggjöf munu frekar koma upp í tengslum við samningana. Sú krafa verður gerð, m.a. af undirrituðum og fleirum í félags- og tryggingamálanefnd, að nefndin hafi visst eftirlit með því hvernig þessir samningar verða úr garði gerðir og hvernig þeim verður framfylgt.

Ótal spurningar munu vakna í því sambandi. Uppleggið í hinum sértæku skuldaaðlögunaraðgerðum er að koma á jafnvægi milli skulda og eigna og þeim sem eru mjög skuldsettir er gert að selja eignir. Þarna vakna margar spurningar, t.d. um hvernig hægt sé að selja eignir í þessu árferði — það er ekki beinlínis virkur markaður fyrir hendi, hann er að mörgu leyti botnfrosinn — og hversu yfirgripsmikið þetta verði. Einnig varðandi þá sem hafa skuldsett sig með veðum í tveimur eignum, t.d. í húsum foreldra í tilviki ungs fólks. Ég vona að það sé ekki hugsunin með samningunum að ungu fólki verði gert að selja hús foreldra sinna. Önnur álitamál varða t.d. fólk sem fór í lóðakaup í góðærinu og situr núna eftir með stór skammtímalán. Þetta er sannarlega ekki óráðsíufólk heldur bara fólk sem ætlaði að byggja sér hús sem á að vera sjálfsagt í nútímaþjóðfélagi eins og við búum í. Nú stendur þetta fólk eftir með auða lóð og himinhá lán. Hvernig meðhöndlun fær þetta fólk í hinni sértæku skuldaaðlögun? Þetta eigum við allt eftir að sjá. Verður því gert að selja lóðina og þá hvernig og á hvaða kjörum o.s.frv., eða verður því einhvern veginn gert kleift að klára sínar byggingar, svo dæmi sé tekið?

Ýmis álitamál koma upp í tengslum við skattamál, einkum og sér í lagi í tengslum við afskriftir skulda fyrirtækja. Ég held að það sé mun flóknara en varðandi afskriftir skulda heimilanna. Við leggjum til að breytingar á skattalöggjöfinni í tengslum við afskriftir skulda fyrirtækja fari til sérstakrar meðhöndlunar í efnahags- og skattanefnd þar sem það á betur heima.

Í tengslum við Íbúðalánasjóð má nefna að í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að það yrði einfaldlega veitt heimild til að stofna heildsölubanka. Á einum kvöldfundinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að það væri líklega fullbratt í svona fljótræði að ákveða á Alþingi að veita ráðherra og Íbúðalánasjóði heimild til að stofna í rauninni, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sem þá sat þann nefndarfund orðaði það, 1.000 milljarða heildsölubanka. Það þarf auðvitað að ræða þetta mun ítarlegar og nefndin leggur til að það verði gert. Þar flaug einn kviðlingurinn frá undirrituðum:

Helgi fékk lögin fyrir sig lesin

og lagðist í djúpa þanka.

Áleit það annmörkum háð, vesen

að opna í kvöld nýjan banka.

Nefndin tók undir að þetta þarf mun meiri yfirlegu. Engu að síður er þetta mikilvægt mál vegna þess að næsta skrefið — og mun ég koma að því síðar, mikilvægi þess að taka fleiri skref en það er líka inntak þess að ég skrifa undir með fyrirvara. Ég tel nauðsynlegt að við tökum nokkur skref og næsta skref hlýtur að lúta að því hvernig við ætlum að reyna að endurfjármagna lánin, skuldbreyta og þá með niðurfellingu á höfuðstól. Ég held að þegar vextir verða skaplegri á Íslandi, vonandi verður það fljótlega, verði hægt að bjóða skuldurum á Íslandi upp á niðurfellingu höfuðstóls gegn því að fara yfir í óverðtryggð lán. Ég held að Íbúðalánasjóður og heildsölubanki, stofnaður undir Íbúðalánasjóði, muni þjóna lykilhlutverki í því að endurfjármagna nýja lánaflokka sem verður gríðarlega mikilvægt næsta skref. Um þetta er náttúrlega ekki sérstaklega rætt í þessu lagafrumvarpi, en minn fyrirvari lýtur m.a. að því að farið verði af festu í að stíga þessi næstu skref með miklu yfirgripsmeiri niðurfellingu á höfuðstóli, t.d. gegn því að endurfjármagna lán á öðrum kjörum. Þar held ég að Íbúðalánasjóður muni gegna lykilhlutverki.

Fyrirvarinn lýtur líka að því að ég tel mikilvægt að annaðhvort starfshópurinn sem við leggjum til að verði stofnaður til að leggja mat á þessi tilteknu lög fari í að skilgreina hver næstu skref eiga að vera á lánamarkaði eða að stofnaður verði sérstakur þverpólitískur starfshópur, eins og hæstv. félagsmálaráðherra boðaði í raun við 1. umr. þessa máls, sem skilgreini næstu skref. Við framsóknarmenn leggjum gríðarlega áherslu á að farið verði í að lækka höfuðstólinn með frekari almennum aðgerðum á lánamarkaði og við teljum að fjölmargar leiðir séu til þess. Það er fagnaðarefni að í þessu frumvarpi er í rauninni opnað fyrir þessa hugsun.

Þá kem ég að almennu aðgerðunum og fjalla stuttlega um þær. Viðurkennt er að þörf er á að lækka greiðslubyrði almennt yfir línuna og fara ekki í neitt manngreinarálit í þeim efnum. Allir Íslendingar sem skulda tóku einfaldlega á sig högg og þeir fá núna lækkaða greiðslubyrði í tilviki gengistryggðra og verðtryggðra lána. Það er gert ráð fyrir að greiðslujöfnunin muni lengja lánin en það er þak á þeirri lengingu og það er gríðarlega mikilvægt. Það felur í sér vísi að almennri afskrift og þennan vísi eigum við auðvitað að nota til að stíga næstu skref sem yrðu almennar afskriftir af húsnæðislánum.

Hins vegar vakna líka ýmsar spurningar í tengslum við þessar almennu aðgerðir og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir tæpti á einni áðan. Mikið var rætt í nefndinni hvort allir sem skulda verðtryggð lán á Íslandi ættu að fara sjálfkrafa inn í greiðslujöfnunarvísitöluna. Greiðslujöfnunarvísitalan er ekki beinlínis gagnsætt hugtak og margir lántakendur munu sjálfsagt spyrja margra spurninga um það tiltekna hugtak. Það breytir þó ekki því að með því að tengja við greiðslujöfnunarvísitölu lækka afborganir lána núna en afborganir munu síðan hækka eftir því sem kaupmáttur eykst og atvinnuleysi minnkar. Margir munu væntanlega ekki telja þetta henta sér sérstaklega og munu ekki vilja tengja lánin sín við greiðslujöfnunarvísitölu. Tölur frá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum sýna að mjög margir eiga ekki í vandræðum með sín verðtryggðu lán, hafa kannski skuldað þau í langan tíma, eru komnir langt með að greiða þau og vilja ekkert hringla með afborganir af þeim með því að fara inn í þetta kerfi. Þá er gríðarlega mikilvægt, finnst mér, að það verði mjög einfalt að fara út úr þessu, að til þess þurfi bara einn takka á heimasíðu eða eitt símtal. Þetta er álitamál en ég tek undir þau sjónarmið að gríðarlega mikilvægt sé að þessi aðgerð nái til þeirra sem þurfa mest á henni að halda. Þess vegna eigum við að láta þetta ganga yfir alla og allir fari inn í þetta sjálfkrafa. Þá aukast líkurnar á því að þetta nái til þeirra stóru hópa sem munu njóta góðs af þessu þó að álitamálið sé vissulega til staðar. Mikilvægt er að það sé mjög einfalt að fara út úr þessu.

Í grundvallaratriðum fagna ég þessu en tel mikilvægt, og það er megininntak míns fyrirvara, að við stígum núna af mikilli ákveðni í þverpólitískum starfshópi næstu skref til að koma markaðnum af stað og koma skuldurum á Íslandi út úr því skuldafangelsi sem myndaðist í hruninu fyrir ári síðan.