138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

Fjármálaeftirlitið.

[15:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari spyr um nokkur atriði í samskiptum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins og ég vil byrja á því að leiðrétta nokkrar lykilstaðreyndir. Meðal annars fullyrti hann að einu breytingarnar hjá Fjármálaeftirlitinu hefðu verið þær að skipt hefði verið um einn starfsmann, þ.e. forstjórann. Það er einfaldlega rangt. Það var skipt um alla stjórn stofnunarinnar. Hún sagði reyndar af sér áður en ég varð ráðherra en það kom í minn hlut að skipa nýja stjórn, bæði aðalmenn og varamenn, þannig að það hefur verið skipt um þá alla og svo hefur jafnframt verið skipt um forstjóra eins og kunnugt er. Eitthvað hefur verið um að nýir starfsmenn hafa komið í stað þeirra sem áður störfuðu í stofnuninni en ég hef ekki yfirlit um það hér nákvæmlega hversu margir þeir eru.

Síðan hefur jafnframt verið unnið ötullega innan ráðuneytisins að því að fara yfir regluverkið sem gildir um fjármálaeftirlit á Íslandi, bæði lagarammann og annað, og afrakstur þess mun koma í þingið á allra næstu vikum og hugsanlega á vorþingi einnig. Það hefur því margt breyst og mun margt breytast til viðbótar því sem þegar hefur breyst.

Einnig hafa orðið einhverjar starfsmannabreytingar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en að uppistöðu til er þar sama starfsfólk og var þegar ég kom til starfa þó að nokkrir hafi bæst við. Eitthvað hefur skipulag ráðuneytisins breyst en að uppistöðu til er sama starfsfólkið við þau störf sem það hafði þar áður.