138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

verklagsreglur banka.

[15:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að ég muni hafa einhver afskipti eða skoðanir á verklagsreglum bankanna en ég tel ólíklegt að ég muni beita mér beinlínis fyrir því að þeim verði breytt beint í gegnum Bankasýsluna, enda heyrir hún fyrst og fremst undir fjármálaráðuneytið en ekki efnahags- og viðskiptaráðuneytið. En hvað sem því líður liggur það í fyrsta lagi fyrir að bankarnir hafa allir sett sér verklagsreglur og birt þær opinberlega. Þetta eru í grundvallaratriðum, held ég, ágæt plögg en það er svo annað mál hvernig farið er eftir þeim. Það þarf vitaskuld að hafa eftirlit með því.

Nú vill svo til að með nýsamþykktum lögum heyrir upp á mig að skipa m.a. nefnd til að hafa eftirlit með þeim málum og að sjálfsögðu mun ég gera það. Jafnframt heyrir Fjármálaeftirlitið undir mig sem einnig fylgist með þessum málum og ég geri ráð fyrir því að það fylgist með þessu á sínum vettvangi.