138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[16:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til að halda aðeins áfram með þessa hugsun, þá held ég að kannski verði stóra álitamálið hvernig þetta muni ganga gagnvart nýjum og lítt þekktum fyrirtækjum það að menn telji sig hafa takmarkaðar upplýsingar til að byggja á þegar þeir velta fyrir sér fjárfestingum. En rétt er að hafa í huga að rótgróin fyrirtæki sem eru með nýsköpunar- og þróunarverkefni á sínum vegum geta líka nýtt sér þessa möguleika. Sum þeirra eru skráð á markað í dag og eru fyrirtæki sem almenningur þekkir og geta á grundvelli nýrra skilgreindra verkefna og aukinna umsvifa á þessu sviði fengið aðild að þessum reglum. Að sjálfsögðu er æskilegt að þetta geti orðið á almennum grunni þannig að ný fyrirtæki njóti góðs af ekkert síður en þau sem þekktari eru og rótgrónari. Kannski þarf þá að huga að kynningu og reglum eða upplýsingum sem tryggt væri að kæmust út til almennings. Að sjálfsögðu er hægt að halda utan um það og gætu samtök þessara fyrirtækja sem og Rannís og fleiri slíkir aðilar lagt sitt af mörkum. Ég held að þetta byggi kannski ekki síst á því að upplýsingum sé komið á framfæri, að menn viti og treysti því að þetta sé í skipulögðum og traustum farvegi og að haldið sé utan um þetta bæði af Rannís og skattyfirvöldum, þannig að menn setji ekkert inn í einhverja óljósa, ótrygga starfsemi, heldur fyrirtæki sem hafa verið tekin út, uppfylla settar reglur, hafa fengið þessa skráningu og eru það álitleg að þau hafa komist í gegnum nálaraugað.