138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal draga það til baka og það var ekki hugsun mín að þau væru tilraunadýr, það var ekkert illa meint í því að löggjafinn og stjórnin ætluðu að gera það heldur hefði verið æskilegra að nota orðið tilraunasveitarfélög.

Ég tek bara undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að það sé skynsamlegt að gera þetta þannig núna, að fá sveitarfélög til þess vegna þess að við verðum að átta okkur á því hvar við stöndum núna. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er búið að ræða þetta mál, þetta er í þriðja sinn sem það er rætt og það hefur ekki náðst að klára málið og þá tel ég þetta bara eðlilegan farveg. Síðan verða menn líka að átta sig á því að það ríkir ákveðin óvissa í þessu. Nú eru menn í sveitarfélögunum byrjaðir að vinna að uppstillingu og hvort heldur sem menn ætla að fara í prófkjör, í uppstillingar eða forval eða hvernig sem það er gert, þá eru menn að falla á tíma með þetta mál. Maður verður var við það hjá mörgum sveitarstjórnarmönnum, maður fær margar hringingar þar sem spurt er: Hvernig heldurðu að þetta verði? Heldurðu að við verðum skikkuð til að fara eftir þessu og hvert er þitt mat á þessari stöðu? Auðvitað getur maður ekki svarað því með fullnægjandi hætti nema að það standi til að leggja málið fyrir en maður viti ekki um endanleg afdrif þess. Ég teldi að það væri mjög skynsamlegt núna, og tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, að fara þessa leið til að fá málið í eðlilegan farveg en ekki að leggjast í einhverjar skotgrafir um það hvort þetta sé algott eða alslæmt því að það er nú svo að það er alveg sama með hvaða hætti við gerum þetta, við munum alltaf geta fundið kosti og galla á því sem við gerum. Þannig að ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um að við eigum að gera þetta með þessum hætti og ég held að það sé málinu til farsældar.