138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur að frumvarp af þessu tagi væri nú í þriðja sinn til umræðu hér á þingi og er það nokkurn veginn rétt. Það er reyndar nauðsynlegt að geta þess að frumvarp um persónukjör sem lagt var fram á vorþingi fyrr á þessu ári, í febrúar/mars, var nokkuð öðruvísi en það sem nú liggur fyrir. Frumvarpið núna er það sama og var til umræðu í sumar, en frumvarpið í vor, sem þáverandi minnihlutastjórn lagði fram, var frábrugðið í nokkrum atriðum sem ég ætla ekkert að fara út í hér. Hins vegar vildi ég, áður en lengra er haldið, geta þess að mér fannst vinna núverandi ríkisstjórnar að undirbúningi þessa máls byrja vel og miklu betur en síðasta vetur. Mér fannst það mjög jákvætt af hálfu forustu núverandi ríkisstjórnar að efna til ákveðins samráðs eins og gert var í kjölfar kosninganna í vor um undirbúning frumvarpa af þessu tagi.

Ég átti þess kost, eins og kemur fram í frumvörpunum, að sitja þá fundi fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það var gott samstarf og góður andi sem ríkti í því starfi og fyrir það ber að þakka. Það gerði það líka að verkum að fleiri komu að og fleiri raddir heyrðust þegar verið var að semja frumvörpin en verið hafði á vorþinginu og það var í sjálfu sér jákvætt. Það lá fyrir af minni hálfu og míns flokks að þátttaka okkar í þessu samráði fól ekki í sér neina skuldbindingu um stuðning við málið og þegar ákveðið var að frumvarpið yrði lagt fram í þeirri mynd sem þá lá fyrir var ljóst að um stjórnarfrumvarp yrði að ræða og að það yrði borið fram af, eins og þá var reyndar stefnt að, forsætisráðherra — ef ég man rétt hafði það verið hugmyndin, en hvað sem því líður þá var þetta mál augljóslega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þó að stjórnarandstöðuflokkarnir ættu fulltrúa í þessum samráðshópi höfðu þeir hver fyrir sig ýmsa fyrirvara. Sá fyrirvari sem ég geri grein fyrir í þessum samráðshópi var einmitt sá að þátttaka mín fæli ekki í sér neinn stuðning af hálfu þingflokks sjálfstæðismanna.

Ég held að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hafi gert ágæta grein fyrir viðhorfum mjög margra okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins hér áðan þegar hann lýsti því að við teldum að æskilegt væri að leita leiða til að auka möguleika á persónukjöri, en við hefðum áhyggjur af tímafaktornum í þessu sambandi og við værum ekkert endilega sannfærðir um að sú leið sem hér liggur á borðinu væri sú besta. Ég held að ég geti alveg lýst afstöðu minni með þeim hætti og ég hygg að ég hafi talað eins þegar þetta mál kom hér til 1. umr. í sumar.

Ég held að við verðum að hafa í huga, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Róbert Marshall áðan, að þegar við erum að taka ákvarðanir um grundvallarbreytingar á kosningalögum, grundvallarbreytingar á kosningafyrirkomulagi, þá þurfum við að vanda okkur. Við þurfum að undirbúa slíkar breytingar vel. Við þurfum að ræða þær vel og við þurfum, ef vel á að vera, að efna til umræðu sem á sér stað ekki bara hér inni á þingi heldur líka úti í þjóðfélaginu, til þess að fleiri raddir heyrist um þetta mál.

Ég verð að játa það að undanfarna mánuði hefur mér ekki þótt vera nein sérstök umræða um þessi mál úti í þjóðfélaginu. Ég hef ekki orðið var við að það væri lifandi umræða manna á meðal, hvorki á fundum né í fjölmiðlum, um persónukjör eða breytingar á kosningafyrirkomulagi. Ég man að í öllum þeim hamagangi sem var síðasta vetur var töluvert um þetta talað, bæði í blöðum og á fundum, en frá vordögum hefur það ekki verið að mínu mati, ég hef ekki orðið var við það. Nú kann að vera að mér skjátlist um það og þeir sem betur þekkja til leiðrétta það þá, en ég hef ekki orðið var við að persónukjör eða breytingar á kosningafyrirkomulagi séu ofarlega í huga kjósenda. Ég hygg að það sé eins með þorra kjósenda og okkur hv. þingmenn að það sem hefur verið yfirgnæfandi í okkar huga eru efnahagsmál, það eru hagsmunir heimilanna, það eru áhyggjur af atvinnumálum og þess háttar og ekki að furða. Það er það sem heitast brennur á, það er sá eldur sem heitast brennur á fólki, á fyrirtækjum og þar af leiðandi á okkur þingmönnum sem auðvitað heyrum í umbjóðendum okkar.

Ég er því alveg sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það væri að mínu mati eðlilegra að við nýttum þann tíma sem við höfum næstu vikurnar til þess að ræða áfram þau mál sem snúa að atvinnumálum, sem snúa að efnahagsmálum, sem snúa að hagsmunum heimila, hagsmunum fyrirtækja, að við ræddum þann gríðarlega vanda sem við eigum við að stríða í ríkisfjármálum. Við sjáum fram á gat í ríkisfjármálum sem virðist — ég held frá hvaða bæjarhóli sem er — hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, þá er það gat sem er fyrir hendi í ríkisfjármálunum nánast óyfirstíganlegt. Það er alveg gríðarlegur vandi á ferðinni og við þurfum á öllum okkar kröftum og orku að halda til þess að reyna að finna lausnir í því sambandi. Þó að einstaka nefndir þingsins séu ágætlega mannaðar þá er þetta þess eðlis og sá tími sem við höfum til stefnu að næstu vikum verður augljóslega best varið í þau verkefni, þau brýnu og aðkallandi verkefni.

Ég spurði því hv. þm. Róbert Marshall að því áðan af hverju við ættum að leggja slíkt ofurkapp á að klára þetta mál. Ef við ætlum að fara í breytingar á kosningalögunum, ef við ætlum að breyta lögum um kosningar til sveitarstjórna fyrir kosningarnar í vor, þá þurfum við vissulega að hafa hraðar hendur. Við megum ekki kasta til höndunum, við verðum að gera það vel, við verðum að vanda okkur. Þannig að ég hef áhyggjur af því að við séum að vinna í þessu máli hugsanlega á kostnað annarra mála sem eru brýnni og meira aðkallandi að mínu mati, eða þá að við ætlum bara að láta þetta renna í gegn sem einhvers konar aukaverkefni fyrir okkur hér í þinginu næstu vikurnar, eitthvað hliðar, eitthvað sem við afgreiðum í kaffitímunum og kvöldmatarhléum — að þá vöndum við okkur ekki nægilega vel til að komast að niðurstöðu í þessu máli. Það er það sem ég hef áhyggjur af.

Ég ítreka það sem ég segi, ég er þeirrar skoðunar að það sé æskilegt að við finnum leiðir til þess að auka vægi persónukjörs. Ég er sannfærður um að það er rétt og gott að auka áhrif kjósenda á val þeirra einstaklinga sem setjast á þing og í sveitarstjórnir. Ég hef velt fyrir mér í gegnum árin alls konar hugmyndum í því sambandi. Ég hef mjög oft, vegna þess að eins og margir þá hef ég sveiflast til og frá í þessum efnum í afstöðu minni, verið þeirrar skoðunar að rétt væri að hafa persónukjör í því hreina formi sem er í tilviki þingkosninga bara einmenningskjördæmi. Ég sæi það fyrir mér sem ákveðna leið. Það er mjög hreint form persónukjörs og er fyrirkomulag sem er notað í gömlum og þroskuðum lýðræðisríkjum en hefur ákveðna ókosti, hefur þann ókost augljóslega að stór hluti atkvæða getur fallið dauður niður. Það er mikill ókostur.

Sama má auðvitað segja um margar aðrar leiðir. Það má gagnrýna þá leið sem við höfum í dag, hlutfallskosningaleiðina, hún er auðvitað ekki fullkomin og ófullkomleiki hennar birtist meðal annars í því að þegar flokkur hefur komið sér saman um framboðslista, hvaða aðferð svo sem hann hefur notað til að ná því marki, hvort sem það er uppstilling eða prófkjör eða eitthvað þess háttar, þá eru möguleikar kjósandans á það að hafa áhrif á röð manna harla litlir. Þeir eru reyndar nokkrir. Kjósendur hafa í auknum mæli verið að nýta sér það með því að strika menn út eða breyta röð frambjóðenda á listum sem hefur leitt til þess í einstökum tilvikum að menn hafa fallið niður um sæti, sem gefur vísbendingar um að kjósendur gætu beitt þeim möguleika í enn meira mæli með þeim afleiðingum að menn ekki bara lækki um sæti heldur detti út. Það er ekki fullkomin leið heldur.

Á sama tíma og ég er eindregið fylgjandi því að við tökum þessa umræðu upp, fylgjum henni eftir og höldum henni áfram, þá vara ég við hraða í þessu máli. Ég hef áhyggjur af því að það séu einhverjar hugmyndir um að fara of hratt í þetta mál. Þær áhyggjur endurspeglast mjög í umsögnum frá sveitarstjórnum og sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um landið sem liggja fyrir í gögnum málsins frá því í sumar, umsagnir sem flestar bárust í ágúst og september, á þriðja tug umsagna og mjög margar þeirra frá sveitarstjórnum eða samtökum sveitarfélaga eftir landshlutum eða yfir landið — miklar áhyggjur af tímaskortinum og þess háttar og raunar bent á fjölmarga galla. Það er rétt að geta þess að bæjarfulltrúar og sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum hafa lýst yfir verulegum áhyggjum af þessu, af þeim hraða sem þarna er um að ræða. Menn vilja sjá með góðum fyrirvara hvaða leikreglur eiga að gilda í þeim kosningum sem fyrir stafni eru. Ég held að við verðum að taka tillit til þess. Ég er ekkert alltaf sammála Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða slíkum samtökum en í þessu máli tel ég vel þess virði að hlusta á þau sjónarmið sem koma úr þeirri átt.

Ég vildi svona að lokum kannski koma þeirri skoðun minni á framfæri að ég tel að við eigum að nálgast þetta mál með opnum huga, ekki vera bundin endilega við þá leið eða þá útfærslu sem liggur fyrir í þeim frumvörpum sem hér eru á borðum okkar. Ég tel að við eigum að skoða aðra möguleika. Ég nefndi hér áðan að það eru farnar mjög margar mismunandi leiðir í sambandi við persónukjör vítt og breitt um heiminn og bara í nágrannalöndum okkar sjáum við fjöldamargar mismunandi útfærslur. Þótt hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir teldi að það væri hægt að rúlla í gegnum það á svona tveimur fundum er ég ekki alveg viss um að það sé svo létt verk, vegna þess að auðvitað þurfum við aðeins að fara í gegnum kosti og galla hvers kerfis fyrir sig.

Ég held að við eigum sem sagt að leggja vinnu í þetta. Ég held að við eigum að hvetja til umræðu úti í þjóðfélaginu um þetta. Ég held að við ættum að fá sem flest sjónarmið fram um þetta og ég held að það að reyna að skapa víðtæka sátt um breytingar á kosningakerfinu sé kannski mikilvægara en að koma breytingunum endilega inn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí á næsta ári. Það er mín hugsun í þessu.

En að lokum vildi ég kannski velta því fyrir mér, það undrar mig svolítið hvers konar stjórnarfrumvarp hér er á ferðinni. Það má skilja það á umræðum hér í kvöld að frumvarpið njóti nokkurs stuðnings innan Samfylkingarinnar. Hér hafa alla vega komið stuðningsmenn málsins úr þeim flokki. Hér hefur enginn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs talað. Raunar held ég að síðan hv. þm. Atli Gíslason hvarf úr salnum fyrir tveimur klukkutímum hafi enginn þingmaður VG verið hér viðstaddur. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er ríkisstjórnarflokkur, ber sem slíkur ábyrgð á því að þetta mál kom hér inn í þingið sem stjórnarfrumvarp. VG er í ríkisstjórn. Málið er stjórnarfrumvarp. Það hefur verið samþykkt bæði í ríkisstjórn og í þingflokki VG. Alla vega að leggja það fram. Í gögnum málsins er umsögn frá stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, stjórn VG, þar sem situr sem formaður hv. þm. og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir varaformaður. Þessi stjórn VG sendi allsherjarnefnd umsögn núna í september, 16. september ef ég man rétt, þar sem segir eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta: „Frumvarpið um persónukjör er ófullkomið og þarf mun betri umfjöllun áður en það er tilbúið til afgreiðslu.“ Þar segir líka að stjórnin leggi til að málinu verði vísað inn í umræður um stjórnlagaþing. Og svo segir: „Frumvarpið um persónukjör er ófullkomið og þarf mun betri umfjöllun.“

Síðan eru á tveimur blaðsíðum, tími minn er að líða, raktir margvíslegir ókostir við það fyrirkomulag sem hér er lagt fram. Þetta er stjórn VG, stjórnarflokksins VG, þar sem formaður er hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon (Forseti hringir.) og hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir er varaformaður. Þetta vekur auðvitað furðu.