138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:43]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki ofsagt að það séu óvenjulegir tímar á Íslandi og ég hygg að sá óróleiki og þær áhyggjur sem nú geysa í þjóðfélaginu eigi sér ekki samlíkingu á okkar tímum og vonandi tekst okkur fljótt og vel að koma þjóðinni aftur á lygnari sjó. En víst er að það tekur tíma og það mun taka miklu lengri tíma ef menn ætla að halda sig við að tala alltaf hver úr sinni áttinni og vilja ekki vinna saman að því að leysa úr málunum. Nokkrum sinnum frá því að minnihlutastjórnin tók við 1. febrúar hefur stjórnarandstaðan komið fram með tillögur, lagt fram hugmyndir sínar eða komið með innlegg í umræðuna um efnahagsmál. Framsóknarflokkurinn gerði það snemma árs og þetta er í annað skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn kemur fram með tillögur til að ráðast í bráðavanda í efnahagsmálum. Þessar tillögur eru settar fram til að um þær fáist umræða, til að menn geti skipst á skoðunum og reynt að komast að niðurstöðu um hvernig best er að fara í hlutina.

Það er stundum sagt að á Íslandi sé aldrei talað um okkar gamla menningararf, fornsögurnar, nema á tyllidögum. Það er gjarnan sagt að menningarmál séu alltaf í orði en ekki á borði. Menn segja gjarnan: Já, það er gaman að státa sig af Njálu á 17. júní en gera svo ekkert þess á milli. Það getur vel verið að nokkuð sé til í því að við þurfum að ganga betur um sagnaarfleifð okkar og halda henni betur að þjóðinni en mér finnst bar nákvæmlega það sama ógilda orðið um að hafa samráð. Það skal hafa samráð og samvinnu, menn eiga að tala saman og hafa allt uppi á borðum. Þetta er orðin einhver tyllidagaumræða, þetta er ekki raunveruleiki.

Raunveruleikinn er því miður sá að okkur hefur ekki tekist þetta þrátt fyrir að hafa talað um það allt frá því að hrunið varð að við þyrftum að fara að vinna saman í þessum sölum sem einn maður að því að leysa vandann. Umræðan endar jafnan í því að farið er að bera saman hugmyndir vegna þess að þær koma frá hinum og þessum flokkum. Nú í umræðunni um efnahagsmálin, vegna þeirrar þingsályktunartillögu sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram, sýnir það sig ágætlega nú í þessum sölum að því miður hafa stjórnarliðar ekki tekið mikinn þátt í umræðunni og ekki látið mikið sjá sig. Ég held að við eigum að láta af þeim ósið þegar komið er fram með hugmyndir til að létta undir því það er ekki svo að það sé bara hálf þjóðin sem er í vandræðum eða hefur áhyggjur, við höfum það öll, öll, alveg sama hvar í flokki við stöndum. Alveg sama hvort ástandið á heimilinu er betra eða verra en annars staðar. Þetta er sameiginlegt vandamál okkar allra og saman þurfum við að komast út úr því. Þess vegna þætti mér afar vænt um það ef ríkisstjórnin mundi horfa á þetta með opnum huga. Ég geri mér grein fyrir því að það er pólitískur áherslumunur en erum við ekki alltaf að segja í hinu orðinu að nú þurfum við að leita eftir óvenjulegum leiðum og horfa í allar áttir.

Það þarf líka að huga að því að þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram eru hugsaðar sem bráðaaðgerðir. Ég vil líka að það komi fram við þessa umræðu að ég held að það sé mjög mikilvægt þegar farið er yfir þetta að menn líti ekki svo á að verið sé að stilla hlutunum upp hverjum á móti öðrum. Ég nefni t.d. atvinnumálin. Nú erum við aftur farin af stað í erfiða umræðu um orkunýtingarmál, ég ætla ekki að fara mjög nákvæmlega út í það hér en ég vil þó segja þetta: Við megum aldrei líta svo á að atvinnugreinar eigi að kaffæra hver aðra. Við eigum ekki að líta svo á að einhver atvinnugrein sé annarri fremri eða fínni og hinar séu einhvern veginn verri. Við verðum að skapa þjóðfélag þar sem menn sjá tækifæri og geta nýtt þau, alveg sama þótt þau séu kannski ekki öllum jafnhugnanleg.

Við Íslendingar höfum reynt að leggja okkar af mörkum í vísindum og þróun. Við erum mjög stolt af þeim fyrirtækjum sem hafa náð mjög langt þar. Við höfum líka séð merkilega hluti gerast á sviði kvikmyndaiðnaðar þar sem menn hafa verið að reyna að ýta undir hluti þar. Auðvitað eigum við að halda áfram á þessum sviðum og ýta undir alla slíka viðleitni en við þær aðstæður sem nú eru vantar okkur samt ákveðna innspýtingu ef svo má segja. Við þurfum einhvern veginn að koma okkur aftur af stað, hvernig sem við gerum það. Við þurfum að finna leiðir til að gera það.

Það kom fram í ágætri utandagskrárumræðu áðan að gerð hafi verið mörg mistök í aðdraganda hrunsins og að menn skyldu vara sig á að gera ekki slík mistök aftur. Skattalækkanirnar voru sérstaklega nefndar og atburðir tengdir þeim, árin 2003 og 2004. Ég hygg að slíkar hugmyndir hefðu kannski komið fram á vettvangi flestra flokka þá. Auðvitað er það rétt að kenningar eru uppi um að þegar mikil þensla er í þjóðfélaginu þá sé kannski ekki endilega heppilegasti tíminn til að lækka skatta en þá má líka segja á móti að ekki stendur í neinum hagfræðiritum að maður eigi að hækka skatta þegar allt er stopp. Það er þvert á móti. Um leið og menn gagnrýna aðgerðir fyrri ára gera menn nákvæmlega sömu mistökin með öfugum formerkjum. Er það það sem við ætlum að gera núna, önnur mistök með öfugum formerkjum? Ég held að það sem blasir við okkur núna nr. eitt, tvö og þrjú sé að skapa skilyrði fyrir íslenskt samfélag til að fá einhvers konar súrefni á ný. Þetta endar auðvitað allt og byrjar heima hjá manni, með heimilunum í landinu. Til að heimilin í landinu geti náð einhverri fótfestu þarf að vera hér öflugt atvinnulíf. Það er bara þannig.

Það getur vel verið að það komi betur í ljós við þær aðstæður sem við erum í núna að við erum eyjarskeggjar, við búum á eyju og því þurfum við að skapa okkur okkar eigin tækifæri. Hér fara menn ekki yfir landamæri og sækja nokkurn skapaðan hlut. Við verðum að gera svo margt sjálf. Það er kannski dálítið ósmart að veiða fisk, það getur vel verið að mönnum finnist það, en það verður að gera það, við verðum að draga björg í bú. Og með því að skapa þau skilyrði mjög rík þá skapast aftur tækifæri til að gera það sem við viljum helst gera í framtíðinni, þ.e. að skapa möguleika fyrir ný fyrirtæki, nýjar hugmyndir. Það hlýtur að vera langtímamarkmiðið og við eigum líka að gæta þess sérstaklega á slíkum tímum sem nú eru að taka ekki ákvarðanir sem skemma þann möguleika.

Ég vil þá sérstaklega horfa á menntakerfið og rannsóknirnar. Ég held að nú sé gríðarlega mikilvægt að við pössum okkur á því að við erum að taka skref sem hafa áhrif langt inn í framtíðina. Ef við erum búin að njörva allt niður og brjóta niður frumkvæði fólks með gríðarlegum álögum þá dregur það úr líkunum á því að hugmyndaflug okkar og hugvit fái notið sín og það vil ég ekki sjá. Mér finnst áhugavert að líta til útlanda og ég held að maður ætti að gera meira af því að reyna að læra af öðrum. Stundum er sagt að það læri enginn neitt nema reka sig á sjálfur. Margt er til í því og það er kannski akkúrat það sem ég óttast mest að við séum að halda áfram að gera.

Í Noregi var mikið kreppuástand upp úr 1950, fyrir svo mörgum árum síðan, löngu áður en hinar miklu olíuauðlindir Norðmanna fundust. Fyrir þann tíma þóttu Norðmenn ekkert sérstaklega rík þjóð. Þegar kreppan var sem verst þar var tekin sú ákvörðun að fara þá leið að reynt yrði að spýta eins miklu fé og hægt væri inn í samfélagið og að einnig skyldir litið til þess að það yrði gert á þeim grunni menntunar og nýsköpunar sem þjóðin mundi njóta sín sem best. Slíkir hlutir taka hins vegar marga áratugi. En það verður að vera einhvers konar samkomulag um það meðal þjóðarinnar að það sé gott að fara í slíkar áttir.

Ég vildi óska þess að við gætum a.m.k. lært það af þeim ósköpum sem hafa dunið yfir að þegar um er að ræða sameiginlega grundvallarhagsmuni þjóðarinnar eigi menn a.m.k. að reyna að vinna saman að því að koma þjóðinni aftur á réttan kjöl. Við erum ekki nema 63 inni í þessu herbergi. Ekki eru það margar hræður. (BJJ: Við erum bara fimm.) Eigum við ekki að reyna að tala saman af einhverju skynsamlegu viti og velta fyrir okkur hvort hægt sé að gera hlutina þannig að við munum ekki vera í þessu ástandi um langa framtíð?

Hv. þm. Björn Valur Gíslason upplýsti okkur um það áðan að efnahagsmál hafi verið til umræðu í allt sumar á vettvangi þingsins. Því miður er það ekki svo. Á vettvangi þingsins höfum við verið upptekin við að reyna að verjast ágangi erlendra þjóða í Icesave-samkomulaginu og mikið óskaplega hefði ég viljað að sá tími sem í það fór hefði farið í nákvæmlega það að efla efnahagslíf í landinu. Það kann að vera að sú vinna hafi verið í gangi á vettvangi ríkisstjórnarinnar en því miður, sitjandi í fjárlaganefnd óttast ég mjög að það hálfa fjárlagafrumvarp sem nú liggur fyrir muni valda okkur miklum vandræðum alveg fram að áramótum þegar við þurfum síðan að samþykkja það. Það verður ekki komist hjá því að samþykkja fjárlagafrumvarpið fyrir 31. desember. Ég hygg að það sé skynsamlegast að bæði fulltrúar allra flokka í fjárlaganefnd og allir flokkar Alþingis átti sig á því að í dag er 6. nóvember og að 31. desember eiga fjárlög Íslendinga að vera klár. Þá á skattapólitík þessarar þjóðar einnig að vera klár sem mér skilst að verði boðuð næstu daga. Og ef menn geta ekki að haft neitt samráð og ekki talað við nokkurn mann um það sem fram undan er, ef maður á ekki að fá að vita hvað er í pípunum þá er hættan sú að þetta verði afskaplega tafsamt. Og finnst mönnum á það bætandi ofan á það sem á undan er gengið? Maður bara spyr.