138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

kolefnisskattar.

[14:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er með hálfum hug sem ég legg í það að vitna í þetta mikla feimnismál sem er sá kafli í greinargerðinni með fjárlagafrumvarpinu þar sem fjallað er um orku- og auðlindaskatta. Það er orðið svo viðkvæmt að fjalla um þetta mál að ég er dálítið tvístígandi. Engu að síður vil ég vekja athygli á því að í þessum feimnismálakafla fjárlagafrumvarpsins er fjallað um svokallaða skattlagningu á kolefnislosun og þar er sérstaklega vísað til möguleika á því að leggja skatta á bensín, þotueldsneyti og gasolíu.

Nú hefur náttúrlega verið beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir því hvernig þessi mál yrðu útfærð og í fréttum sjónvarpsins í gær var greint frá því að hæstv. ríkisstjórn væri að hugleiða að leggja á þessi kolefnisgjöld sem mundi leiða til þess að bensínlítrinn færi í sirka 200 kr. Þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafi verið á harðaflótta undan þessum hugmyndum um kolefnis- og orkugjöld hef ég ekki heyrt neinn ráðherra hafna því að til standi að leggja á kolefnishluta þessara skattlagninga. Þess vegna verður að ætla það að nú sé verið að vinna að því að útfæra þessi mál.

Að vísu hefur komið fram að þessi mál eru enn þá í hinum reykfylltu bakherbergjum ríkisstjórnarflokkanna þar sem verið er að véla um hvernig þessir skattar eiga að líta út. Þess vegna langar mig að heyra frá hæstv. samgönguráðherra hvort hann telji það koma til greina að leggja á kolefnisgjöld með þeim hætti sem greint var frá í fréttum í gær að mundu leiða til þess að bensínlítrinn færi í tvöhundruðkall. Það mundi bitna mjög harkalega á landsbyggðinni og þeim sem þurfa að fara um langan veg, það er líka álit framkvæmdastjóra FÍB.

Í fyrra pólitíska lífi hæstv. ráðherra, þegar hann var stjórnarandstæðingur, var hann óþreytandi að minna okkur á mikilvægi þess að reyna að draga úr kostnaði og draga úr flutningskostnaði og létta gjöldum af umferðinni. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni (Forseti hringir.) samþykkja það fyrir sitt leyti að leggja á kolefnisskatta sem muni leiða til þess að bensínið fari í tvöhundruðkall.