138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Síðasta árið sem ég gegndi embætti ferðamálaráðherra kom forsvarsmenn greinarinnar til mín og báru mikinn kvíðboga fyrir komandi vetri. Ríkisstjórnin brást við með því að setja sérstaklega fé til markaðssóknar fyrir veturinn og vorið. Það bar árangur, það segja forsvarsmenn greinarinnar. Á þessu hausti komu þeir líka og báru eðlilega kvíðboga fyrir þeim vetri sem við erum nú að renna inn í og ríkisstjórnin brást við með nákvæmlega sama hætti. (SIJ: Felldi gengið.) Ríkisstjórnin brást við með því að setja meiri pening í markaðssóknina.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að Ísland er að ganga í gegnum erfiðleika og það verða allir að axla þær byrðar með einhverjum hætti. Það má alveg segja að það sé djöfullegt fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að þurfa t.d. að axla aukið tryggingagjald. Það þurfa líka öll önnur fyrirtæki í landinu að gera. Mér þykir það sárt og dapurt en ég get ekki breytt því, með einhverjum hætti þarf að gera þetta. Eigi að síður veit ég af þekkingu minni á ferðaþjónustunni (Forseti hringir.) að hún er í blússandi gangi og mun koma öflug út úr þessu og kemur sennilega miklu sterkari út úr fjárhagskreppunni en nokkur (Forseti hringir.) önnur grein.