138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn hefur algjörlega hárrétt fyrir sér. Það er ekkert sem mælir því í móti að það verði gert og að þær fjárveitingar sem fara með þessum hætti sérstaklega og eru á sérstökum fjárlagalið undir iðnaðarráðuneytinu og fara til verkefnisins í Bandaríkjunum verði teknar undir verkefnið. Það eru reyndar í gangi viðræður um það, nákvæmlega þessa dagana. Mér finnst sjálfsagt að hv. utanríkismálanefnd fjalli um það.

Af því ég gleymdi nú að svara hér hv. þingmanni, formanni þingflokks Framsóknarflokksins, þá ætla ég að syndga upp á náð forseta og segja:

Ég legg til að þetta frumvarp fari til utanríkismálanefndar, málaflokkurinn fellur undir það, en ég tel hins vegar algjörlega sjálfsagt að það verði líka sent til þeirrar nefndar sem fer með ferðaþjónustumálin, því að betur sjá augu en auga.