138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[18:16]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Velkominn til starfa. Það er alveg stórmerkilegt að íslenskt fjármálalíf skuli hafa þurft að hrynja í rúst til að yfirleitt væri farið að huga að því misrétti sem viðgengist hefur áratugum saman — og kannski öldum saman, ég hef ekki sagnfræðilega þekkingu til að segja til um það — því óréttlæti sem hefur a.m.k. ríkt í mjög langan tíma og því misræmi milli stöðu fyrirtækja sem taka fjármuni að láni og þeirra einstaklinga sem þurfa að taka fé að láni. Við búum eins og kunnugt er í þjóðfélagi sem gerir ráð fyrir því að allir eða allflestir einstaklingar þurfi a.m.k. einu sinni á ævinni að taka að láni upphæð sem samsvarar mörgum brúttóárslaunum þeirra til að tryggja sér og sínum þak yfir höfuðið.

Þegar fyrirtæki sem hefur tekið lán og keypt sér fasteign lendir í greiðsluvanda gengur fasteignin væntanlega upp í að borga það af skuldinni sem hún dugir fyrir. Svo er málinu lokið, fyrirtækið skiptir um kennitölu og þær persónur sem standa á bak við það róa á ný mið. Ef fólk sem neyðist til að taka lán, án þess að hafa sérstaka fjármálaþekkingu eða sérstakan áhuga á fjármálum yfirleitt, til að koma sér upp húsnæði og lendir í vandræðum og greiðsluþroti er ástandið þannig að hægt er að ofsækja þetta fólk og sitja um allar tekjur þess árum saman, án allrar miskunnar, án alls réttlætis og án alls jafnræðis við þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í fjármálum og sérhæfa sig þar með í að taka áhættu.

Mér finnst í raun og veru furðulegt að frumvarp í þessum anda skuli ekki hafa séð dagsins ljós fyrir löngu, fyrir mögrum áratugum og verið samþykkt fyrir löngu. En það er betra seint en aldrei og ég óska Lilju Mósesdóttur til hamingju með þetta frumvarp. Ég mun styðja það eftir mætti.