138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2010 kom fram var vakin athygli á því að þar væri kastað til höndunum og sérstaklega í einum lið sem lýtur að tekjugrein fjárlaga, þar væru á ferðinni mjög óljósar hugmyndir um að auka skatttekjur ríkisins á árinu 2010 um 61 milljarð. Útfærsla hugmyndanna var með þeim hætti að 35 milljarðar áttu að koma inn í tekjusköttum, 8 milljarðar í virðisauka og síðan áttu 18 milljarðar að skila sér í nýjum sköttum á orku og auðlindir og eitthvað því um líkt.

Frá því að frumvarpið kom fram í þessari mynd hafa landsmenn upplifað þá stöðu að stjórnarflokkarnir bítast á um það með hvaða hætti eigi að útfæra þessar hugmyndir sem og andstöðu mikla meðal almennings við ýmsar hugmyndir sem þarna eru á floti og sérstaklega við orku- og auðlindagjöldin. Nú ber svo við að þegar hugmyndir koma fram á síðustu dögum um útfærslu á breytingum á tekjuskatti ætlar allt af göflunum að ganga. Hvers vegna skyldi svo vera? Það kynni þó ekki að liggja í óeiningu innan stjórnarflokkanna um það með hvaða hætti þetta ætti að gera? Það liggur fyrir að það eru skiptar skoðanir innan stjórnarflokkanna, milli þeirra og innan hvors stjórnarflokks um sig. Mig langar að forvitnast um það hjá varaformanni þingflokks Samfylkingarinnar hver afstaða þingflokks Samfylkingarinnar sé gagnvart þeim tillögum sem nú liggja fyrir varðandi tekjuskattinn. Þar sem andstaða Sjálfstæðisflokksins við það mál liggur fyrir, sömuleiðis andstaða Framsóknarflokksins, spyr ég hvort ekki sé upplagt fyrir Samfylkinguna þegar hún hefur náð áttum í þessu efni að stökkva á vagninn með okkur sjálfstæðismönnum í andstöðu okkar við þessi áform og leggja okkur lið við að koma til framkvæmda þeim efnahagstillögum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælt fyrir í þinginu.