138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ástæða þess að ég kem upp og ber fram fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, um Ferðasjóð Íþróttasambands Íslands, er sú að hér er um afskaplega brýnt hagsmunamál að ræða fyrir þann mikla fjölda fólks og einkum ungmenna sem blessunarlega stundar íþróttir úti á landi og tekur þátt í keppnum víða um land. Hér er um mikið jafnræðismál að ræða, hvort ungmenni í hinum dreifðu byggðum geta yfirleitt tekið þátt í íþróttastarfi á landsvísu til jafns við þann fjölda sem gerir slíkt hið sama á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flest íþróttafélögin eru vitaskuld hvert í návígi við annað.

Á undangengnum árum hefur verið komið mjög til móts við íþróttafélög úti á landi í þessum efnum. Ef ég fer rétt með, frú forseti, held ég að 30 millj. kr. hafi verið varið til þessa flokks fyrir nokkrum árum sem fór síðan upp í 60 millj. kr. á yfirstandandi ári og átti að fara upp í 90 millj. kr. á næsta ári en svo verður reyndar ekki gert heldur staldrað við þessa upphæð sem ég nefndi áðan, 60 millj. kr., og reyndar sýnist mér sú tala vera um 57 millj. kr. Þetta er gott og vel en ekki er komið til móts við þær þarfir sem klárlega eru fyrir hendi víða um land til að jafna tækifæri ungmenna um allt land til að taka þátt í íþróttastarfi og kappleikjum á landinu. Þetta er að mínu viti mjög brýnt mál, ekki bara fyrir íþróttirnar sem slíkar heldur líka fyrir allt forvarnastarf sem við eigum að leggja gríðarlega mikla áherslu á í þessu húsi og sem víðast um land.

Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann vilji beita sér fyrir því að staðið verði við þennan upprunalega samning, að fjárframlögum verði varið til þessa málaflokks sem samningnum nemur á næstu missirum, því eins og ég gat um er um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir allar byggðir í landinu, þ.e. að þær sitji við sama borð og íþróttafélögin á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa ekki á jafnmiklum ferðapeningum að halda og félögin sem eru fjærst borginni eins og flestir geta gert sér í hugarlund.