138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sérstakt fjárframlag til sparisjóða.

161. mál
[19:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir spurningarnar og eins hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil koma því hér að að það er mjög mikilvægt — þó að það sé örugglega rétt hjá hæstv. ráðherra að sparisjóðirnir tengist mjög sterkum böndum innbyrðis, og ég hygg að aðrar lánastofnanir tengist þeim einnig með beinum eða óbeinum hætti, svo sem þeir viðskiptabankar aðrir sem við þekkjum — að reynt sé að leysa vanda hvers sparisjóðs út frá þeim aðstæðum sem ríkja á hverjum stað og í því umhverfi sem sparisjóðurinn starfar í. Mér er kunnugt um að það er mjög mikilvægt varðandi suma af þessum sjóðum að vikur eða jafnvel dagar séu í að ákveðin mál leysist frekar en mánuðir. Því er mjög ánægjulegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra að hann sjái fram á lausn á þessu flókna máli.