138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum gera okkur grein fyrir því að ekki er þörf á að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu ef þjóðarviljinn er 90% með og 10% á móti eða 90% á móti og 10% með. Það eru fyrst og fremst umdeild mál hjá þjóðinni sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrst og fremst komast ríkjandi stjórnvöld ekki að niðurstöðu í máli og þá er því vísað til þjóðarinnar til úrlausnir þannig að það sé á hreinu. Úr því að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi prósentutölur er líka rétt að geta þess að ég hugsa að ansi margir þingmenn eigi kannski erfitt með að gera upp hug sinn og verði þá að greiða atkvæði eftir sinni eigin sannfæringu fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla 51% gegn 49%. Það er þetta sem málið snýst um og út af því má Alþingi ekki bregðast því hlutverki sínu að fari það þannig í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu verða þingmenn að stóla á að hver og einn þingmaður greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Þá komum við líka að því að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er ekkert annað en hin svokallaða skoðanakönnun meðal þjóðarinnar því að þjóðin á ekki síðasta orðið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er grunnurinn í þessu öllu saman.

Hér var minnst á lýðræðistilraun sem Reykjavíkurborg fór af stað með fyrir einhverjum árum um flugvallarkosninguna. Þar var ekki um bindandi niðurstöðu að ræða, enda fór kosningin þannig að þeir sem vildu flugvöllinn burt voru örlítið fleiri en þeir sem vildu hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn er áfram í Vatnsmýrinni þrátt fyrir að nei-fólkið virðist vera fleira og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni virðist ekkert vera á förum. Akkúrat það að þetta sé ekki bindandi fyrir stjórnvöld skilur málið eftir í fullkominni óvissu og lausu lofti.