138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að koma hér til að verja eða gagnrýna tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna sem hv. þingmaður vísar til. Ég þykist hins vegar vita að sem fjárlaganefndarmaður muni hann finna þar ýmsar góðar ábendingar. En staðreyndin er auðvitað sú að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ætti að vita það betur en flest okkar hér inni, sem nefndarmaður í fjárlaganefnd, við hve mikinn vanda er að stríða á þeim vígstöðvum. Ég þykist vita að hann geri sér gerir fyrir því að fjárlög sem ganga upp þarf að afgreiða frá þingi fyrir áramót og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður geri sér líka grein fyrir því að við erum óralangt frá því marki að hafa nokkra línu í því hvernig við ætlum að afgreiða fjárlögin á þessum tímapunkti. (ÁsmD: Við erum alla vega ekki að keyra eftir þessu víti.) Við erum óralangt frá því að hafa nokkra niðurstöðu (Forseti hringir.) um tekjuhlið fjárlaga og við erum óralangt frá því (Forseti hringir.) að vera búin að afgreiða útgjaldahliðina.