138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langar aðeins að bregðast við þeirri orðræðu sem hefur verið hérna síðustu 20–30 mínúturnar og benda á að einhvers staðar verður maður að byrja. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum eitthvað til að tryggja að við lendum aldrei aftur í nákvæmlega sömu stöðu og við erum í í dag. Til að svo verði verður að koma hérna löggjöf sem tryggir lýðræðisumbætur og rétt almennings til að hafa eitthvað að segja um atburðarásina eins og hún var t.d. hérna í janúar sl., án þess að þurfa að standa fyrir utan þingið og efna til óeirða.

Að aðeins öðruvísi nótum, mig langar að fjalla um þetta frumvarp en ekki efnahagsmálin. Þó að þau séu vissulega ákaflega brýn er það svolítið þannig í þinginu að það er beðið eftir málefnum, beðið eftir frumvörpum og á meðan nýtum við tímann til þess að ræða um lýðræðisumbætur, sem mér finnst vel.

Undanfarnar tvær vikur hafa verið okkur lýðræðisumbótasinnum góðar á þinginu. Ég fagna þeirri meðvitund sem fólk virðist vera að fá um það hvernig það vill nýta sér lýðræðisrétt sinn. Um langa hríð hefur verið fjallað um að auka veg lýðræðis með lagagjörð, en það hefur aldrei farið af umræðustiginu inni í framkvæmdina. Þá fagna ég því hvernig mál eru að þróast á þinginu og vona einlæglega að hægt verði að komast að sameiginlegri niðurstöðu um frumvörpin tvö um þjóðaratkvæðagreiðslur, frumvarp hæstv. forsætisráðherra sem ég veit að hefur mikinn áhuga á lýðræðismálum og frumvarp Hreyfingarinnar geta vel farið saman til að tryggja að um raunverulega lýðræðislega umbót verði að ræða.

Það er einhver undarleg þversögn í því að í sömu andrá — og nú er ég að vísa til frumvarpsins sem við erum að ræða um — og verið er að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur sé það eingöngu á valdi hins pólitíska meiri hluta að boða til þeirra. Það sem ég hef heyrt úti í samfélaginu er að skilningur almennings á eðli þjóðaratkvæðagreiðslna sé að það sé úrræði fyrir þjóðina en ekki bara löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Ég sé málið a.m.k. þannig fyrir mér og ég ætla ekki að standa hér og þykjast túlka vilja þjóðarinnar. Ég er þeirrar einlægu skoðunar að það sé brýnt verkefni að virkja þjóðina til að hafa meiri áhuga á samfélagi sínu og að gera henni það auðvelt og aðgengilegt. Til þess að hægt sé að hafa skoðun er mikilvægt að hafa aðgang að upplýsingum.

Ef það hefði verið möguleiki að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftasöfnun, eins og við leggjum fram í því frumvarpi sem við lögðum fram í síðustu viku um þjóðaratkvæðagreiðslur, hefði t.d. þjóðin getað hafnað því á afgerandi hátt að vera á lista hinna staðföstu þegar kom að árásarstríði á Írak. Þá hefðum við kannski getað fengið að kjósa um hvort við ættum erindi í öryggisráðið, fengið að taka upplýsta ákvörðun þar sem allar tölur um kostnað höfðu legið fyrir og hvaða aðferðum átti að beita til að reyna að koma okkur þangað inn. Þá hefði Ingibjörg Sólrún farið út með skilyrðislaust umboð þjóðarinnar um þetta stóra mál eða þá hefðum við getað sleppt því að fara út í þetta kostnaðarsama verkefni.

Með stofnun Lýðræðisstofu er tryggt upplýsingaflæði um málefni er eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt upplýsingaflæði verður að vera byggt á upplýsingum en ekki áróðri eins og oft tíðkast þegar kemur að pólitík. Það skýtur skökku við að ekki sé minnst á Lýðræðisstofu í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Þetta frumvarp á að vera grunnurinn að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra ætli ekki að virða að vettugi leiðbeiningar og vilja meiri hluta utanríkismálanefndar er varðar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB.

Frú forseti. Sú orðræða sem hefur átt sér stað hér í dag varðandi þetta brýna mál gefur mér tilefni til að finna smávonarglætu um að við getum sem þingmenn á slíkum örlagatímum komið að því saman að byrgja brunninn sem við hrundum ofan í í lok hrunadansins og komumst vonandi upp úr án þess að bíða varanlegan skaða af. Það er góð tilfinning að geta hugsanlega, mögulega tekið þátt í að færa þjóðinni þau völd sem hún hefur alltaf átt skilið að bera ábyrgð á, valdið til að geta haft áhrif ef þörf er á oftar en á fjögurra ára fresti. Ég held að það sé mjög gott fyrir okkur þingmenn að hafa slíkt aðhald frá þeim er hafa falið okkur umboð sitt til að vera fulltrúar þeirra hér á löggjafarsamkundunni.