138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:37]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um mikilvægi þess að vægi atkvæða sé skipt jafnt milli allra eins og er í alþingiskosningum. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um þetta.

Eins og fram hefur komið í máli hæstv. forsætisráðherra hafa þingmenn Hreyfingarinnar einnig lagt fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur. Við í Hreyfingunni viljum berjast fyrir lýðræðisumbótum og við erum bara nokkuð ánægð með frumvarpið okkar og teljum að það feli einmitt í sér nauðsynlegar lýðræðisumbætur, nú þegar þjóðin stendur á tímamótum og er að endurskoða gildi sín. Ástæða þess að við lögðum fram okkar frumvarp var einmitt frumvarp hæstv. forsætisráðherra sem var í vinnslu í vor og sumar, en í vor var skipaður vinnuhópur um persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing sem var okkar hjartans mál og var hv. þm. Þór Saari fulltrúi okkar í þeim hópi. Setan þar var fremur sorgleg og í stuttu máli sagt áttu hugmyndir okkar sem nú skipum þinghóp Hreyfingarinnar um lýðræðisumbætur ekki upp á pallborðið hjá þeim embættismönnum sem stýrðu hópnum. Ég fagna því að mál sem snúa að lýðræðisumbótum séu loks komin á dagskrá þingsins. Mér finnst það frumvarp sem hér er þó ekki ganga nægilega langt fram í lýðræðisátt þótt það sé vissulega skref í rétta átt. Við getum ekki boðið þjóðinni frumvarp þar sem hvorki þjóðin né minni hluti þingmanna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarflokkarnir einir geta ekki tekið sér það vald að ákveða fyrir okkur hin, íbúa þessa lands, hvort og um hvað við megum kjósa. Við megum ekki halda almenningi í stöðu barnsins sem fær ekki að taka afstöðu til eigin framtíðar, ekki er hlustað á og ekkert mark er á takandi. Valdið verður að vera hjá þjóðinni og við verðum að eiga þann nauðsynlega öryggisventil að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu með friðsamlegum hætti. Án þess festum við flokksræðið enn betur í sessi.

Nú veit ég vel að það stangast á við stjórnarskrána að þjóðaratkvæðagreiðslur séu bindandi. Okkar frumvarp er líka því marki brennt að vilji þjóðarinnar getur einungis verið ráðgefandi þar til stjórnarskrá hefur verið breytt. Ég tel mikilvægt að farið verði í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni við fyrsta tækifæri og ekki aðeins breytingar en það er víst næsta mál á dagskrá í dag þannig að að mínu mati er það grundvallaratriði að þjóðaratkvæðagreiðslur séu bindandi og að vilji þjóðarinnar sé virtur.

Nú verður báðum þessum frumvörpum vísað til allsherjarnefndar og vona ég að þau fái bæði málefnalega meðferð og afgreiðslu hjá nefndinni. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr starfi nefndarinnar og að taka frekari þátt í umræðum í þinginu. Þá finnst mér mikilvægast að kynning og fræðsla á þeim málefnum sem vísa skal til þjóðaratkvæðagreiðslu sé bæði fagleg og hlutlaus. Í okkar frumvarpi lögðum við til að stofnuð yrði sérstök Lýðræðisstofa sem sæi um slíka kynningu og fræðslu. Eins og komið hefur fram í umræðum í dag rataði Lýðræðisstofa inn í nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar um aðildarviðræður að ESB í sumar og trúi ég ekki öðru en að allsherjarnefnd taki tillit til þess álits í umfjöllun sinni.