138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

afskriftir skulda.

[10:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það virðist vera orðið þannig að nánast allir nema ríkisstjórnin og greiningardeild hennar eru að gera tóma vitleysu í útreikningum. Meira að segja Mats Josefsson talar nú einhverja fásinnu, maðurinn sem var nánast heilagur fram að því að hann fór að gagnrýna ríkisstjórnina, og það á líka að gagnrýna Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hér réð öllu ef hann talar ekki alveg í takt við ríkisstjórnina.

Varðandi umræðuna um afskriftir og hvernig þær eru hugsaðar erum við að sjálfsögðu búin að fara margoft í gegnum þá umræðu. Þegar gert er ráð fyrir því að afskrifa helming útlána, jafnvel meira en það eins og í tilviki fyrirtækjanna, er um að ræða algjört kerfishrun. Þá er tjónið svo mikið fyrir samfélagið og þar með ríkið að það er mjög mikið til þess vinnandi að reyna að koma í veg fyrir það hrun. Ímyndum okkur t.d. ef við afskrifuðum 44% af öllum lánum til heimilanna, hvaða áhrif hefði það á getu þeirra til að halda áfram neyslu og getu fólks til að halda heimilum sínum? Ætli þyrfti að afskrifa svo mikið í viðbót? án þess að ég sé að leggja til að sú leið verði farin.