138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

afskriftir skulda.

[10:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að í þeim verklagsreglum sem t.d. bankarnir hafa mótað sér um skuldaúrvinnslu heimilanna er auðvitað gert ráð fyrir því að í talsverðum mæli verði skuldir afskrifaðar. Það er alveg ljóst. Það er líka ljóst að útlán munu tapast í hinu opinbera lánakerfi. Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika. Markmiðið er hins vegar að reyna að tryggja að sem allra flestir ráði við greiðslubyrði sína og geti haldið húsnæði sínu og þegar betur árar mætist það á nýjan leik að fasteignaverð hækkar og greiðslugeta fólks vex.

Ég hafði ekki þessi orð uppi sem hv. þingmaður tók sér í munn, að allt væri vitleysa sem kæmi frá öðrum en ríkisstjórninni. Ég held að frekar megi snúa því við og segja að hv. þingmaður hefur stundum uppi stór orð um það hversu ógáfulegt allt er sem kemur frá öðrum en honum sjálfum. (Gripið fram í.) Úr því að það er sjálfsmat hv. þingmanns að hann hafi alltaf rétt fyrir sér (Gripið fram í.) óska ég honum til hamingju með það. Það er ekki ónýtt að vera svona ánægður með sjálfan sig að hafa (Forseti hringir.) bara einkunn upp á það á Alþingi að maður hafi alltaf rétt fyrir sér. (Gripið fram í.)