138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:35]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég veit í sjálfu sér ekkert meira en hver annar almennur borgari þessa lands um skattáform ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur haldið spilunum mjög þétt að brjósti sér og forðast að gefa neinar upplýsingar um fyrirætlanirnar, en af fréttum í fjölmiðlum má ráða að fyrirhugaðar séu skattahækkanir á almennar launatekjur fólksins í landinu.

Þetta fær mig til að rifja upp sögu af bankaræningja sem var frekar mislukkaður, rændi hvern bankann á fætur öðrum og var jafnóðum handtekinn. Loks kom þar að lögreglan spurði þennan mann af hverju hann héldi áfram að ræna banka. Hann gaf þetta skynsamlega svar: Það er vegna þess að þar eru peningarnir. Þessi mislukkaði maður hafði þó meiri skilning á efnahagsmálum en ríkisstjórnin virðist hafa. Ef ríkisstjórnin ætlar að hækka skatta á almennar launatekjur í þessu landi er hún að fara í geitarhús að leita ullar.

Það sem þarf að nota skattkerfið í er að auka tekjur ríkissjóðs en þá á að nota skattkerfið til að leita uppi peninga þar sem þeir eru fyrir. Ég fullyrði að venjulegt launafólk í þessu landi er ekki aflögufært. Við búum við verðbólgu og við höfum séð gengi krónunnar hrynja. Allur almenningur, þjóðin í landinu borgar skatta frá morgni til kvölds í hvert skipti sem eitthvað er keypt til heimilisins eða lífsins þarfa og hugmyndir um frekari álögur á laun sem í mörgum tilvikum duga ekki til að standa undir vöxtum og föstum greiðslum eru brjálæðislegar.

Ég sting upp á því að í þessari blönduðu aðferð sem ríkisstjórnin kynnir á dálítið dularfullan hátt verði hugsað til þess að blandan verði þannig á bragðið að almenningur í landinu hafi lyst á henni.