138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að það atriðið sem varðar skötuselinn er, eins og kemur fram í frumvarpinu, bráðabirgðaákvæði og lýtur að honum.

Um vinnsluskylduna held ég að það sé almenn krafa um að gefin sé stefnumarkandi yfirlýsing um að nýta eigi til manneldis allar þær fiskafurðir sem nokkur kostur er og uppsjávarfiskurinn hefur verið nefndur líka. Að sjálfsögðu fer ráðherra varlega með þá heimild en hann hlýtur að hafa hagsmuni útgerðar, fiskvinnslu, þjóðarhags og allra í huga í þeim ákvörðunum. Ég minni á að í sumar þegar verið var að tala um að setja auknar skyldur og kvaðir á vinnslu á makríl var einmitt talið að ráðuneytið hefði ekki til þess lagaheimildir. Ég held því að mjög mikilvægt sé að við eigum slíkar heimildir til að beita, frú forseti.