138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

skipulag þingstarfa.

[14:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fljótlega í þessari umræðu var þess óskað að hæstv. forseti mundi svara því hvort ætlunin væri að taka Icesave-málið fyrir á næsta fimmtudegi, þ.e. ekki á morgun heldur hinn. Því hefur ekki enn þá verið svarað. Mér finnst hv. þingmenn ekki fara fram á mjög mikið eða mjög langt fram í tímann í skipulagi þingsins þegar farið er fram á að vita hvort þetta mikla mál komi til umfjöllunar ekki á morgun heldur hinn.

Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vakti athygli á greindi hæstv. fjármálaráðherra frá því að hann telji að það eigi að hefja þessa umræðu á fimmtudaginn. Það er ágætt fyrir okkur hina að vita hvort það sé ætlunin eða ekki.

Það er líka rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson hefur bent á að búið er að breyta þingsköpum til að gera skipulag þingsins auðveldara. Hér áður, fyrir þær breytingar, tókst mönnum að hafa eitthvert langtímaplan um störf þingsins.

Ég er síðan ósammála hv. þm. Þráni Bertelssyni um að við höfum verið að ræða eitthvert smáskiterí þegar við vorum að ræða (Forseti hringir.) um með hvaða hætti fjárlaganefnd starfaði og hvernig hún sniðgekk algerlega (Gripið fram í.) álit efnahags- og viðskiptanefndar. Það liggur fyrir að þeir (Forseti hringir.) sem skrifuðu undir það af hálfu ríkisstjórnarflokkanna eru sælir og ánægðir með þau vinnubrögð. (Gripið fram í.)