138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin nánast að kjarna þessa máls sem þetta frumvarp fjallar um og ég gagnrýni þetta lagafrumvarp út af þessum orðum sem eru hér á dagskrá.

Það er rétt sem þingmaðurinn segir, hér er framkvæmdarvaldið að segja löggjafarvaldinu fyrir, hafi það gerst fyrr í tíð þessarar ríkisstjórnar. Framkvæmdarvaldið er með öðrum orðum að skipa löggjafarvaldinu fyrir á þann hátt að við eigum að samþykkja þetta frumvarp til laga sem bindur hendur sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar sem ákvörðuð var með lögum um kjararáð frá 2006. Það er verið að binda hendur kjararáðs í þá átt að þeir aðilar sem sitji í ráðinu geti ekki hreyft sig gagnvart því að hækka laun dómara eða umbuna þeim á nokkurn hátt.

Við skulum átta okkur á því að hundruða milljarða mál liggja fyrir dómskerfinu á næstu árum vegna hrunsins og vegna þess sem hér gerðist. Á meðan er verið að binda hendur kjararáðs til ársloka 2010 svo að kjararáð geti ekki hækkað laun dómara um 40–50 þúsund, eða hvaða tölu sem er, á mánuði til þess að koma til móts við þessa aðila. Í lögum um kjararáð er skýrt tekið fram á hvaða grunni kjararáð á að byggja sína úrskurði. Þar er talað um að þetta skuli aðallega vera dagvinna og síðan einhver umbun að auki og þetta skuli taka mið af launaþróun. Kjararáð komst að þeirri niðurstöðu, fékk þá skipun frá löggjafarvaldinu, að á árinu 2008, eftir hrunið, skyldu þessi laun lækkuð. Krafan var 5–15% launalækkun á þá aðila sem undir kjararáð heyrðu.

Ég er sammála þingmanninum um að það má þakka fyrir að þessir aðilar sem standa í þessum sporum nú fari ekki hinum megin við borðið og sæki málin sem hér liggja fyrir. Miklar upphæðir eru undir og þetta skiptir þjóðarbúið miklu máli. Icesave-málið er komið úr íslenskri lögsögu þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur (Forseti hringir.) af því en það á eftir að dæma í öllum hinu stóru málunum. Ég hef miklar áhyggjur af dómstólum landsins í heild sinni og ekki minnkar þetta (Forseti hringir.) frumvarp þær áhyggjur mínar.