138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skeleggan málflutning um þetta viðamikla og mikilvæga mál. Ég tel að Íslendingar allir séu sammála um að gæði náttúrunnar hér séu mikil og mikilvæg og það sé ástæða til þess að halda vel á spilunum varðandi hvað við verndum og hvað við nýtum.

Ég hef tvær spurningar til hæstv. umhverfisráðherra. Í fyrsta lagi langar mig að ræða aðeins um meðferðina á þessu máli í umhverfisnefnd. Við sem sátum hér á sumarþingi upplifðum það að málið var rifið út úr umhverfisnefnd án nokkurrar umfjöllunar á því þingi. Við nokkrir þingmenn gerðum miklar athugasemdir við það verklag og töldum, og ég tel enn að það sé gríðarlega mikilvægt að þetta mál fái efnislega umfjöllun í nefndinni og þar verði kallaðir fyrir þeir aðilar sem hagsmuna eiga að gæta og hafa eitthvað til málanna að leggja. Ég vil einfaldlega beina þeirri spurningu til hæstv. umhverfisráðherra hvort ráðherrann sé ekki sammála mér um að það sé mikilvægt að umhverfisnefndin fjalli um málið.

Í annan stað hjó ég eftir því í ræðu hæstv. umhverfisráðherra að nú standi yfir gerð rammaáætlunar varðandi nýtingu og verndun og í kjölfar þeirrar niðurstöðu sem þar kemur út verði ráðist í friðlýsingar. Er þá ekki rétt að láta þá reglu gilda í stað þess að leggja til í þessari náttúruverndaráætlun að ákveðin svæði verði friðlýst eins og gert er t.d. varðandi Þjórsárver? Er með þessu verið að gefa fyrirmæli inn í vinnu verkefnisstjórnar rammaáætlunar? Er ekki full ástæða til þess að geyma ákveðin atriði sem skarast gætu við niðurstöðu þeirrar nefndar líkt og hæstv. ráðherra kom sjálf inn á hér í sínu máli?