138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.

126. mál
[12:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að beina þessari fyrirspurn til fjármálaráðherra og var ánægjulegt að heyra það í máli hæstv. fjármálaráðherra að hann hefur hagsmuni landsbyggðarinnar mjög í fyrirrúmi við þessar breytingar. Hins vegar verður að gagnrýna það hvernig þetta mál kom allt saman til eyrna þjóðarinnar. Það er ekki eingöngu hv. þingmenn sem hafa haft áhyggjur af þessu máli og fleirum varðandi opinberar stofnanir á landsbyggðinni heldur eru það að sjálfsögðu íbúarnir á þessum svæðum sem hafa haft miklar áhyggjur. Það er ábyrgðarhluti að setja það í fjölmiðla og koma þeim skilaboðum út að draga eigi saman þarna og breyta starfseminni án þess að vera búinn að móta sér einhverjar skoðanir á því hvernig það skuli gert og jafnvel ekki búið að reikna út hvaða hagræðing er í því falin, eins og kom fram í þinginu varðandi breytingar í lögreglunni og á sýslumannsembættum.